Fáir að koma eða fara á næstunni miðað við orð menntamálaráðherra

Þrátt fyrir að bóluefni vegna Covid-19 veirunnar sé ekki innan seilingar þá telur Lilja Alfreðsdóttir, menntamálaráðherra, að bólusetning sé forsenda fyrir því að opna landið á nýju. Baklandi ferðaþjónustunnar er brugðið miðað við umræðu á Facebook.

Það verður fámennt á vinsælustu ferðamannastöðum landsins um langt bil samkvæmt þeirri stefnu sem menntamálaráðherra boðar. Mynd: Nicolas J Leclercqolas J Leclercqls Nedel / Unsplash

„Núna er það svo að við mun­um ekki sjá fram á að fá er­lenda ferðamenn um nokkra hríð vegna þess að í þess­ari krísu verða tak­mark­an­ir á fólks­flutn­ing­um vegna þess­ar­ar heil­brigðis­vár sem við erum að fást við,“ segir Lilja Alfreðsdóttir, menntamálaráðherra, í viðtali við Mbl.is. Hún bætir því við að um­fangs­mikl­ar ferðatak­mark­an­ir fram að bólu­setn­ingu vegna Covid-19 geri það að verk­um að hag­kerfið verði að hálfu lokað og hálfu opið enda sé bólusetning forsenda opnunar landsins.

Þróun á bóluefni vegna Covid-19 er hins vegar skammt á veg komið og umræða um þessa fullyrðingu Lilju menntamálaráðherra í Baklandi ferðaþjónustunnar á Facebook ber þess merki að forsvarsfólki í greininni er brugðið. Enda ljóst að fáir kæmust til og frá landinu á næstu misserum ef þetta verður stefna stjórnvalda.

Málshefjandi umræðunnar á Facebook er Pétur Óskarsson, framkvæmdastjóri Viator og einn af eigendum Katla-Travel. Hann spyr hvort þarna sé Lilja að hugsa upphátt eða fara með opinbera yfirlýsingu. „Þetta er mjög drastísk leið en mikilvægt að vita ef búið er að ákveða þetta,“ bætir Pétur við.

Styrmir Þór Bragason, forstjóri Arctic Adventures, leggur orð í belg og segist fyrirfram hafa talið að svona yfirlýsingin ætti heldur heima í ræðu forsætisráðherra sem myndi enda á orðunum „Guð Blessi Ísland“.

Eins og staðan er í dag þá tekur Ísland þátt í ferðatakmörkunum innan Schengen samstarfsins og ríkja Evrópusambandsins. Af þeim sökum er geta einstaklingar sem hvorki eru EES- né EFTA-borgarar komið til landsins nema þeir geti sýnt fram á að för þeirra sé vegna brýnna erinda. Tilmælin gilda í 30 daga frá 20. mars sl.

Uppfært: Í skriflegu svari Bjarna Benediktssonar, til fréttastofu Vísis, segir að ákvörðun um stefnu í þessum málum hafi ekki verið tekin innan ríkisstjórnarinnar.