Ferðaþjónustan fær verulegan afslátt út árið

Gjaldskrá Faxaflóahafna lækkar um allt að 75 prósent vegna ástandsins sem nú er vegna kórónaveirunnar.

Eitt af hvalaskoðunarskipum Eldingar. Mynd: Elding

Stjórn Faxaflóahafna hefur samþykkt aðgerðaráætlun sem koma á til móts við viðskiptavini í ljósi þess forsendubrests sem COVID-19 faraldurinn hefur haft á rekstrarumhverfi fyrirtækja og heimila. Meðal aðgerða er lækkun farþegagjalda hvala- og náttúruskoðunarfyrirtækja um 75 prósent frá síðustu mánaðamótum og fram til 30.júní. Lækkunin nemur svo helmingi frá 1. júlí og fram til áramóta.

Í tilkynningu frá Faxaflóahöfnum segir að samþykktinni sé ætlað að koma til móts við smærri útgerðaraðila í hvalaskoðun, sjóstangaveiði og náttúruskoðun. Í dag er hefðbundið farþegagjald 190 krónur en það lækkar niður í 48 krónur næstu þrjá mánuði og fer svo upp í 95 krónur á seinni helmingi ársins.

„Útlit er fyrir að farþegagjald vegna hafsækinnar ferðaþjónustu verði í ljósi aðstæðna óverulegt árið 2020,“ segir jafnframt í tilkynningu frá Faxaflóahöfnum.

Auk afsláttar á farþegagjöldum þá munu leigutakar húseigna hjá Faxaflóahöfnum getað óskað eftir frestun á greiðslu leigu í mars, apríl og maí í ár. Skilyrði fyrir þessum greiðslufrestir er að sýnt verði fram á verulegt tekjutap miðað við sama tíma í fyrra.


Viltu styðja Túrista?

Nú þegar virkilega á reynir þá stendur Túristi vaktina frá morgni til kvölds. Ef þú ert einn þeirra lesenda sem finnst gagn í skrifum Túrista þá væri ómetanlegt ef þú myndir leggja útgáfunni lið. Smelltu hér fyrir nánari upplýsingar.