Fleiri Evrópulönd sem mæla með inneignarnótum til ferðamanna

Það er ekki bara hér á landi sem stjórnvöld bregðast við aðstæðum með því að heimila ferðaskipuleggjendum að endurgreiða farþegum með inneignarnótum.

Breytingar á reglum um endurgreiðslur til ferðamanna ná bæði til Íslendinga á leið til útlanda og erlendra ferðamanna á leið hingað. Mynd: Nicolas J Leclercq / Unsplash

Vegna víðtækra ferðatakmarkana hér heima og erlendis þá hafa ferðaþjónustufyrirtæki þurft að aflýsa ferðum síðustu vikur. Og þá eiga neytendur rétt á fullri endurgreiðslu innan fjórtán daga. Aðstæður í dag eru þó mjög óvenjulegar því nú falla allar ferðir niður og um leið koma engar bókanir í nýjar.

„Þar sem mörgum pakkaferðum hefur nú verið aflýst á skömmum tíma samhliða miklu tekjufalli er ljóst að lausafjárstaða margra ferðaskrifstofa er bágborin. Líkur eru á að töluverðum fjölda ferðaskrifstofa takist ekki að endurgreiða þær greiðslur sem þeim ber og því kann að koma til nokkurs fjölda gjaldþrota ef ekkert er að gert,“ segir í frumvarpi sem ferðamálaráðherra lagði fram í gær.

Samkvæmt því er ferðaskrifstofum nú heimilt að endurgreiða ferðamönnum með inneignarnótum sem verður að innleysa tólf mánuðum eftir að núverandi óvissu tímabili er lokið. Þetta á bæði við Íslendinga sem eiga bókaðar ferðir héðan til útlanda og erlenda ferðamenn sem hafa keypt Íslandsferðir frá íslenskum ferðaskrifstofum.

Í frumvarpinu er rakið hvernig hliðstæðar reglur hafi verið settar í fleiri löndum Evrópu enda óhætt að segja að sama óvissa ríki um þessi mál alls staðar í álfunni. Þannig hafa ráðamenn í Noregi lagt til reglugerðarbreytingu sem heimilar ferðaskrifstofum að gefa út inneignarnótur sem valkost við endurgreiðslu í peningum. Þá hafa lög verið samþykkt sem fela í sér að til bráðabirgða framlengist endurgreiðslurétturinn í þrjá mánuði í stað tveggja vikna. Austurríkismenn hafa gert sambærilega breytingu en á Möltu mega ferðaskipuleggjendur nú bíða með endurgreiðslu í sex mánuði.

Stjórnvöld í Danmörku, Belgíu, Frakklandi, Ítalíu, Lúxemburg heimila einnig ferðaskrifstofum að endurgreiða með inneignarnótum. „Í flestum ríkjum á Evrópska efnahagssvæðinu hafa stjórnvöld hvatt neytendur til að taka við inneignarnótum í stað endurgreiðslna í peningum og hafa jafnframt tryggt að inneignarnóturnar falli undir tryggingavernd pakkaferðatilskipunarinnar,“ segir jafnframt í frumvarpi Þórdísar Kolbrúnar Gísladóttur Reykfjörð, ráðherra ferðamála.


Viltu styðja Túrista?

Nú þegar virkilega á reynir þá stendur Túristi vaktina frá morgni til kvölds. Ef þú ert einn þeirra lesenda sem finnst gagn í skrifum Túrista þá væri ómetanlegt ef þú myndir leggja útgáfunni lið. Smelltu hér fyrir nánari upplýsingar.