Fleiri velja að fresta ráðstefnum en afbóka

Það verður lítið um fjölþjóðlega fundi, ráðstefnur, hvataferðir og viðburði hér á landi í ár að sögn Sigurjónu Sverrisdóttur framkvæmdastjóra Ráðstefnuborgarinnar Reykjavíkur.

Tómur salur í Hörpu. Mynd: Meet in Reykjavik

Eins og staðan er í dag er búið að fresta eða afbóka nánast öllum fyrirhuguðum erlendum verkefnum sem fara áttu fram hér á landi næsta hálfa árið. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Ráðstefnuborginni Reykjavík (Meet in Reykjavik) sem það hlutverk að markaðssetja höfuðborgina og Ísland fyrir slíka ferðamenn sem jafnan eru kallaðir MICE-ferðamenn.

Félagið vinnur nú að því að safna saman upplýsingum um afbókanir vegna COVID-19 faraldursins og greina árif þeirra á afkomu ferðaþjónustunnar í ár og næstu árin.

„Ef við reynum að finna eitthvað jákvætt úr þeim upplýsingum sem við höfum safnað að þá er það að um sextíu prósent þeirra ráðstefna sem fara áttu fram hér á landi hefur verið frestað og áætlað að þær komi síðar, flestar á næsta ári. Um fjórðung hefur verið aflýst en um fimmtán prósent hafa ekki tekið ákvörðun um hvort þeim verði frestað eða aflýst. Svipaða sögu er að segja með hvataferðir. Um helmingur hefur valið að fresta og um fjórðungur á eftir að taka ákvörðun um frestun eða afbókun. Mikil vinna liggur að baki við að halda þessum bókunum inn á áfangastaðnum og mun sú vinna halda áfram en róðurinn mun eflaust þyngjast eftir því sem líður á faraldurinn,“ segir Sigurjóna Sverrisdóttir, framkvæmdastjóri.

Í tilkynningu kemur fram að mikið er í húfi fyrir ferðaþjónustuna hér á landi að verja þennan markhóp erlendra gesta. „Tekjur af MICE ferðamönnum eru að jafnaði um tvöfalt hærri á hverja gistinótt en af hefðbundnum ferðamönnum. Þetta eru því ferðamenn sem teljast til betur borgandi gesta. Það stefndi í um tíu til ellefu prósent aukningu í komu MICE ferðamanna í ár en þeir voru rétt tæplega 150.000 árið 2019 sem einnig var metár.“

Sigurjóna segir að félagið beri miklar væntingar til markaðsverkefnisins „Saman í sókn“ sem stjórnvöld hafa boðað þegar ferðatakmörkunum verður aflétt. „Við trúum því og treystum að þessum markhóp verði gert hátt undir höfði í þeim aðgerðum. Enda fullt tilefni til“.


Viltu styðja Túrista?

Nú þegar virkilega á reynir þá stendur Túristi vaktina frá morgni til kvölds. Ef þú ert einn þeirra lesenda sem finnst gagn í skrifum Túrista þá væri ómetanlegt ef þú myndir leggja útgáfunni lið. Smelltu hér fyrir nánari upplýsingar.