Samfélagsmiðlar

Flókið að koma til móts við neytendur og ferðaskrifstofur

Bæði Neytendasamtökin og íslenskar ferðaskrifstofur hafa horft til þeirra leiðar sem farin var í Danmörku við að endurgreiða ferðir sem felldar hafa verið niður vegna heimsfaraldursins. Forsvarsmenn danskra ferðaskrifstofa finna þó ýmislegt að fyrirkomulaginu þar í landi.

Nú þegar landamæri hafa lokast og stjórnvöld vara við ferðalögum þá liggja næstum allar samgöngur milli landa niðri. Af þeim sökum hefur brottförum síðustu vikna verið aflýst. Og þegar ferðir eru felldar niður þá eiga neytendur rétt á endurgreiðslu innan tveggja vikna samkvæmt reglum sem gilda innan EES-svæðisins. Þetta á jafnt við um þá sem höfðu borgað inn á ferðalag frá Íslandi til útlanda og líka útlendinga á leið til Íslands á vegum íslenskra ferðaskrifstofa.

Þessi krafa reynist evrópskum ferðaskrifstofum þung við þær aðstæður sem nú ríkja. Allar ferðir falla niður og engar nýjar bókanir berast. Ferðaskrifstofur og flugfélög riða því til falls enda er stór hluti þess lausafjár sem fyrirtækin sitja á núna í formi fyrirframgreiðslna. Umræða um þessa endurgreiðslukröfu er því hávær víða í álfunni enda er réttur neytenda skýr. Á sama tíma standa flugfélög og ferðaskrifstofur frammi fyrir vanda sem löggjafinn sá aldrei fyrir.

Allt frá því að kórónaveirukrísan hófst hefur því verið reynt að finna lausn á stöðunni. Hér heima gaf atvinnuvegaráðuneytið það út í síðasta mánuði að ferðaskrifstofur ættu að endurgreiða ferðir sem felldar hafa verið niður. Og þeim tilmælum hafa margar ferðaskrifstofur fylgt. Seinnipartinn í gær dró ríkisstjórnin í land og sagði að væntanleg væri reglugerð þar sem ferðaskrifstofum yrði heimilað að endurgreiða ferðir með inneignarnótum.

Strax í kjölfarið sendu Neytendasamtökin frá sér ályktun þar sem þessar breytingar eru gagnrýndar. Þar segir að ekki sé boðlegt að ríkisstjórnin hyggist koma til móts við lausafjárvanda ferðaskrifstofa með lagabreytingu sem heimilar þeim að endurgreiða vissar ferðir með inneignarnótum. Hafa samtökin bent á að fara mætti sömu leið og í Danmörku þar sem stjórnvöld hafa sett þrjátíu milljarða í ábyrgðasjóð danskra ferðaskrifstofa. Innspýtingin er í formi láns sem greiða á upp eftir tíu ár.

Forsvarsfólk íslenskra og sænskra ferðaskrifstofa hefur einnig horft til dönsku leiðarinnar. Á sama tíma eru kollegar þeirra í Danmörku ekki himinlifandi með sína stöðu. Ástæðan er meðal annars sú að í Danmörku er ábyrgðasjóður ferðaskrifstofa sameiginlegur sem þýðir að þær upphæðir sem greiða þarf út úr sjóðnum lenda á öllum ferðaskrifstofum. Ekki bara þeim sem nýta sér úrræðin og fara jafnvel á hausinn heldur líka þeim sem eru með allt sitt á hreinu. Formaður danskra ferðaskrifstofa segir að hver ferðaskrifstofa geti aðeins borið ábyrgð á þeirri upphæð sem hún fær lánað úr sjóðnum.

Ráðgjafi í greininni segir í aðsendri grein í ferðaritinu Standby að hann óttist að aðgerðir danskra stjórnvalda gagnvart ferðaskrifstofum þar í landi muni reka helming þeirra í þrot strax á næstu mánuðum. Danska leiðin er því umdeild þar í landi jafnvel þó íslenskar ferðaskrifstofur og Neytendasamtökin horfi til hennar sem lausnar á núverandi vanda.


Viltu styðja Túrista?

Nú þegar virkilega á reynir þá stendur Túristi vaktina frá morgni til kvölds. Ef þú ert einn þeirra lesenda sem finnst gagn í skrifum Túrista þá væri ómetanlegt ef þú myndir leggja útgáfunni lið. Smelltu hér fyrir nánari upplýsingar.

Nýtt efni

Mitt inn í dimmum Grünheideskógi skammt frá Berlín hafa 80 manneskjur komið sér fyrir í kofum sem þau hafa byggt hátt uppi trjánum. Kofaþorpið eru bækistöðvar mótmælenda eða aðgerðarsinna eins og þau kalla sig. Einmitt inni í þessum sama skógi hyggst bandaríski rafmagnsbílaframleiðandinn Tesla stækka svokallaða gígaverksmiðju sem var tekin var í notkun í mars …

Lufthansa hefur náð samkomulagi við verkalýðsfélagið Verdi og þar með er endi bundinn á langa vinnudeilu við flugvallarstarfsfólk þýska flugfélagsins. Flugáætlun Lufthansa fer því ekki úr skorðum yfir páskana líkt og útlit var fyrir en félagið er með þrjár flugferðir til Íslands á áætlun sinni yfir hátíðarnar. Hinn nýi samningur Verdi og Lufthansa kemur í …

Það voru 561 þúsund skráðar gistinætur hér á landi í febrúar sem er um 2,5 prósent samdráttur í samanburði sama tímabil í fyrra. Ef tekið er tillit til hlaupársdagsins þá var fækkunin ennþá meiri eða nærri 6 af hundraði. Á hótelum landsins voru gistinæturnar 373 þúsund sem er ögn meira en í febrúar í fyrra …

Þegar Hagstofan leggur mat á breytingar á verðlagi þá er meðal annars horft til fargjalda, bæði í flug innanlands og til útlanda. Samkvæmt nýjum verðmælingum Hagstofunnar þá lækkaði farið frá Keflavíkurflugvelli um 5 prósent í mars en farþegar í innanlandsflugi þurftu að borga 16 prósent meira en í fyrra. Á sama tíma hækkaði verðlag í …

„Undanfarna mánuði hafa stjórnmálamenn og verkalýðsforingjar viðrað hugmyndir um að hækka virðisaukaskattshlutfall ferðaþjónustu í 24%. Almenn greining á grundvelli viðtekinnar þjóðhagfræði, sem SAF hefur látið vinna, bendir til þess að slík hækkun myndi almennt hækka verðlag og þar með verðbólgu á viðkomandi ári, lækka veltu í ferðaþjónustu, veikja samkeppnishæfni hennar, lækka verga landsframleiðslu og auka …

Xiaomi er hraðvaxta hátæknifyrirtæki í Beijing í Kína, stofnað fyrir 14 árum af frumkvöðlinum og milljarðamæringnum Lei Jun og félögum hans. Á síðasta ári var fyrirtækið í þriðja sæti á lista þeirra sem seldu flesta farsímana - næst á eftir Samsung og Apple. Xiaomi framleiðir og selur margskonar annan háþróaðan tæknibúnað og neytendavörur en samdráttur …

Fyrir rúmu ári var greint frá því að þýska Lufthansa-samsteypan hefði áhuga á að kaupa 40 prósenta hlut í ítalska þjóðarflugfélaginu ITA en niðurstaða hefur ekki enn fengist. Í janúar hóf Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins rannsókn á samkeppnisáhrifum þess að Þjóðverjarnir eignuðust stóran hlut í ítalska flugfélaginu sem lengi hefur verið stjórnvöldum á Ítalíu höfuðverkur.  Nú í …

Fyrir mánuði sendi Storytel frá sér fréttatilkynningu þar sem kynnt var ný þjónusta fyrir notendur. Brátt eiga hlustendur hljóðbóka möguleika á að velja nýjan lesara ef þeim líkar ekki innlesturinn. Valraddirnar eru allar skapaðar af vélmennum eða svokölluðum gervigreindarupplesurum.  Þetta nýja verkfæri Stoyrtel er tekið í gagnið vegna þess að 89 prósent af þeim sem …