Flugfélög í ennþá verri málum

Verri efnahagshorfur og lengri ferðatakmarkanir eru helstu ástæður þess að sérfræðingar alþjóðasamtaka flugfélaga eru svartsýnni á stöðu mála í dag en þeir voru í lok síðasta mánaðar.

Mynd: Heathrow Airport

Tekjur flugfélaga munu dragast saman um 55 prósent í ár og það er viðbúið að batinn vegna kórónaveirukrísunnar verði hægari en áður var gert ráð fyrir. Þetta er mat sérfræðinga IATA, alþjóðasamtaka flugfélaga, sem birtu nýja greiningu á stöðu mála í fluggeiranum í gær. Spáin er mun dekkri en sú sem samtökin gáfu út fyrir tæpum þremur vikum þegar tekjutap flugfélaganna var áætlað á 44 prósent.

Megin ástæður aukinnar svartsýni eru þær að nú er útlit fyrir að ferðatakmarkanir muni vara í lengri tíma en áður var talið. Á sama tíma hafa horfur flugrekstrar í Afríku og Mið-Ameríku einnig versnað og hagvísar eru á niðurleið sem leiðir til minnkandi eftirspurnar eftir ferðalögum.

Alexandre de Juniac, framkvæmdastjóri IATA, segir umfang krísunnar vera orðið það mikið að nú sé ekki lengur hægt að búast við snöggum bata heldur muni það taka lengri tíma að komast aftur á sama stað og áður. Hann skorar því á stjórnvöld að grípa til séraðgerða til að koma flugfélögum til aðstoðar enda séu mörg störf í húfi. Meðal þeirra leiða sem IATA kallar eftir er beinn fjárhagslegur stuðningur við flugfélög til að vega upp á móti tekjutapinu. Lánafyrirgreiðslur eru annar kostur í stöðunni og síðan undanþágur frá opinberum gjöldum.

Í því samhengi má nefna að bandarísk stjórnvöld og tíu stærstu flugfélögin þar í landi gerðu með sér samkomulag í gær um stuðning þess opinbera við félögin. Hið opinbera mun veita flugfélögunum beinan fjárhagsstyrk upp á 70 prósent af þeirri upphæð sem stjórnendur þeirra telja sig þurfa en afgangurinn af upphæðinni kemur í formi lána. Í staðinn fær bandaríska ríkið veð í hlutabréfum félaganna en sá hlutur getur þó ekki farið yfir þrjú prósent af útgefnum hlutafé í hverju félagi fyrir sig. Samkomulagið gerir líka ráð fyrir að flugfélögin geti ekki sagt upp starfsfólki til og með 30. september næstkomandi.


Viltu styðja Túrista?

Nú þegar virkilega á reynir þá stendur Túristi vaktina frá morgni til kvölds. Ef þú ert einn þeirra lesenda sem finnst gagn í skrifum Túrista þá væri ómetanlegt ef þú myndir leggja útgáfunni lið. Smelltu hér fyrir nánari upplýsingar.