Forstjóri Ryanair bjartsýnn á framhaldið

Flugfélög víða um heim búa sig undir takmarkaðan áhuga á ferðalögum í töluverðan tíma eftir að landamæri opnast á ný. Forstjóri stærsta lágfargjaldaflugfélags Evrópu er á annarri skoðun.

Mynd: Ryanair

Um leið og ferðaviðvaranir verða felldar úr gildi þá mun fólk flykkjast til útlanda á ný. Þetta er mat Michael O´Leary, forstjóra Ryanair, sem   skrifar þessi miklu eftirspurn á sérstaklega lág fargjöld. „Þegar ástandið er liðið hjá þá verða gríðarlegir afslættir í boði og þar með aukast ferðalög hratt á ný yfir ákveðið tímabil,“ segir O´Leary við Reuters.

Írski forstjórinn bætir því við að hann telji að farmiðaverðið verði lágt alla vega fram á næsta ár. Almennt hallast greinendur í fluggeiranum þó að því að verðþróunin verði heldur á hinn veginn eftir að kórónaveirukrísan er yfirstaðin. Það mat byggir á minnkandi sætaframboði, versnandi efnahagsástandi og lítilli ferðagleði.

Ein skýring á því að O´Leary er bjartsýnni en kollegar hans er kannski sú að Ryanair flýgur nærri eingöngu milli evrópskra áfangastaða. Og  það eru einmitt ferðalög innanlands og innan heimsálfa sem almennt er gert ráð fyrir að dragist minna saman en reisur milli fjarlægra landa.

Það ber þó að taka spágáfu O’Leary með fyrirvara því í byrjun mars reiknaði hann ekki með að kórónaveiran hefði mikil áhrif og taldi að fólk færi fljótlega á ný að bóka flugmiða. Sú spá gekk heldur betur ekki eftir því Ryanair lagði flugflota sínum stuttu síðar og gerir ekki ráð fyrir ferðum fyrr en í næsta mánuði.