Framkvæmdir við vegi og flugvélaakbrautir fyrst á dagskrá

Hlutafé Isavia verður aukið um fjóra milljarða króna svo hægt verði að flýta framkvæmdum við Keflavíkurflugvöll.

Akbrautir fyrir flugvélar eru meðal þeirra framkvæmda sem ráðist verður í núna í kjölfar innspýtingar ríkisins til Isavia. Mynd: Delta Air Lines

Það er fjármálaráðherra sem fer fyrir hlut ríkisins í Isavia en félagið er að fullu í eigu hins opinbera. Og til að styðja við framkvæmdir þess vð Keflavíkurflugvöll þá fær Isavia nú fjóra milljarða í aukið hlutafé. Í tilkynningu á vef Stjórnarráðsins segir að þetta sé gert með því skilyrði að ráðist verði í innviðaverkefni við flugvöllinn strax á þessu ári.

Aðspurður um dæmi um hvaða verkefni er um að ræða þá segir Guðjón Helgason, upplýsingafulltrúi Isavia, að þau snúi annars vegar að hönnun fyrir næstu framkvæmd við flugstöðina og hinsvegar að hönnun og framkvæmdir við vegi og flugvélaakbrautir.

Samkvæmt fyrrnefndri tilkynningu frá Stjórnarráðinu þá allt þessar framkvæmdir skapi allt að 125 ný störf fyrir hvern mánuð fram á mitt ár 2021.

„Ákvörðun fjármála- og efnahagsráðuneytisins um að styðja við félagið gerir okkur kleift að fara í verkefni sem við hefðum annars ekki haft svigrúm til á þessari stundu“ segir Sveinbjörn Indriðason, forstjóri Isavia, í tilkynningu.