Gera lengra hlé á fluginu til og frá Grænhöfðaeyjum

Nú er útlit fyrir að áætlunarflug Capo Verde Airlines á Grænhöfðaeyjum hefjist ekki að nýju fyrr en 1. júlí.

Mynd: Capo Verde Airlines

Vegna útbreiðslu kórónaveirunnar voru allar ferðir Cabo Verde Airlines á Grænhöfðaeyjum felldar niður þann 18. mars sl. Þá var ætlunin að taka upp þráðinn á ný eftir mánuð en nú hefur verið ákveðið að framlengja þetta hlé fram til 1. júlí 2020.

Erlendur Svavarsson, forstjóri flugfélagsins, segir að áfram verði fylgst með stöðunni á mörkuðum félagsins. Frekari ákvarðanir varðandi flug verði teknar með tilliti til útbreiðslu Covid-19 og þeirra efnahagslegu áhrifa sem faraldurinn hefur valdið á eftirspurn. „Þegar slíkar ákvarðanir eru teknar verður fyrst og fremst tekið tillit til öryggis farþega og starfsfólks,“ segir Erlendur en hann hefur verið forstjóri félagsins frá því ársbyrjun.

Íslenskir fjárfestar undir forystu Loftleiða, dótturfélags Icelandair Group, tóku við stjórnartaumunum í Capo Verde Airlines í fyrra en unnið hefur verið að langtímafjármögnun félagsins. Erlendur segir að sú vinna standi ennþá yfir en gangi vitanlega hægar fyrir sig í núverandi ástandi.

„Hins vegar er það svo að öll él styttir upp um síðir og framsýnir fjárfestar eru tilbúnir til að halda áfram að skoða góð tækifæri. Við gerum þess vegna enn ráð fyrir að loka langtímafjármögnun fyrirtækisins, þó að þeirri fjármögnun kunni að seinka í takt við áhrif ferðabanna og efnahagssamdráttar á heimsvísu,“ bætir Erlendur við.