Hætta líka við Íslandsflug í sumar

Stjórnendur United Airlines hafa fellt niður áætlunarferðir til fjögurra evrópskra áfangastaða í sumar. Á þeim lista er nafn Reykjavíkur að finna.

Boeing 757 þota United Airlines við Leifsstöð. Mynd: United Airlines

Síðustu tvö sumur hafa þotur United Airlines flogið hingað daglega frá Newark flugvelli við New York. Ætlunin var að taka upp þráðinn á ný í byrjun júní en nú er ekki lengur hægt að bóka flug til Keflavíkurflugvallar beint frá New York með United Airlines.

Samkvæmt frétt vefsíðunnar Live and let´s fly þá hefur United einnig fellt niður sumarferðir sínar frá Newark til Palermo, Stokkhólms og Prag. Ástæðan er sú óvissa sem ríkir vegna útbreiðslu kórónaveirunnar.

Líkt og Túristi greindi frá í síðustu viku þá hefur American Airlines einnig fellt niður flug til Íslands í sumar en félagið ætlaði að bjóða upp á Íslandsferðir frá Philadelphia.

Ennþá er hægt að bóka flug hingað með Delta í sumar frá JFK flugvelli við New York en þessi þrjú stærstu flugfélög Bandaríkjanna hafa öll haldið úti flugi hingað yfir aðalferðamannatímabilið.


Viltu styðja Túrista?

Nú þegar virkilega á reynir þá stendur Túristi vaktina frá morgni til kvölds. Ef þú ert einn þeirra lesenda sem finnst gagn í skrifum Túrista þá væri ómetanlegt ef þú myndir leggja útgáfunni lið. Smelltu hér fyrir nánari upplýsingar.