Hafa öll hætt við Íslandsflug í sumar

Keflavíkurflugvöllur hefur verið eina norræna flughöfnin sem fjögur stærstu flugfélög Norður-Ameríku fljúga til. Nú hafa þau öll ákveðið að falla frá fyrri áætlun flug hingað til lands.

Þota á vegum Delta við Keflavíkurflugvöll. Mynd: Delta Air Lines

Stjórnendur flugfélaga skera nú niður flugáætlanir sínar í vor, sumar og haust vegna þeirrar óvissu sem nú ríkir vegna heimsfaraldursins. Af þeim sökum hefur áætlanaferðum bandarískra og kanadískra flugfélaga til Evrópu verið fækkað umtalsvert og þannig hefur Túristi áður greint frá því að American Airlines, United og Air Canada hafa fellt niður allar áætlunarferðir til Íslands í sumar.

Nú bætist Delta við þann hóp því nú er ekki lengur hægt að bóka ferðir með félaginu til Íslands frá JFK flugvelli í New York eða frá Minneapolis. Delta var lengi vel eina bandaríska flugfélagið sem flaug hingað til lands en jómfrúarferðin var farin í sumarbyrjun árið 2011.

Öll þessi fjögur flugfélög ætluðu að halda uppi daglegum ferðum hingað í sumar líkt og þau hafa gert síðustu ár. Með þessum breytingum verður Icelandair eitt um flugið milli Íslands og Norður-Ameríku í sumar eins og staðan er í dag.

Samkvæmt athugun Túrista þá er áætlunarflug evrópskra flugfélaga Íslands ennþá með nær óbreyttu sniði frá því sem tilkynnt var um áður en kórónuveirukreppan skall á. Eins og gefur að skilja getur það breyst áður flugfélög starfsemi sinni í gang á ný.


Viltu styðja Túrista?

Nú þegar virkilega á reynir þá stendur Túristi vaktina frá morgni til kvölds. Ef þú ert einn þeirra lesenda sem finnst gagn í skrifum Túrista þá væri ómetanlegt ef þú myndir leggja útgáfunni lið. Smelltu hér fyrir nánari upplýsingar.