Hafa öll hætt við Íslands­flug í sumar

Keflavíkurflugvöllur hefur verið eina norræna flughöfnin sem fjögur stærstu flugfélög Norður-Ameríku fljúga til. Nú hafa þau öll ákveðið að falla frá fyrri áætlun flug hingað til lands.

Þota á vegum Delta við Keflavíkurflugvöll. Mynd: Delta Air Lines

Stjórn­endur flug­fé­laga skera nú niður flugáætlanir sínar í vor, sumar og haust vegna þeirrar óvissu sem nú ríkir vegna heims­far­ald­ursins. Af þeim sökum hefur áætlana­ferðum banda­rískra og kanadískra flug­fé­laga til Evrópu verið fækkað umtals­vert og þannig hefur Túristi áður greint frá því að American Airlines, United og Air Canada hafa fellt niður allar áætl­un­ar­ferðir til Íslands í sumar.

Nú bætist Delta við þann hóp því nú er ekki lengur hægt að bóka ferðir með félaginu til Íslands frá JFK flug­velli í New York eða frá Minn­ea­polis. Delta var lengi vel eina banda­ríska flug­fé­lagið sem flaug hingað til lands en jómfrú­ar­ferðin var farin í sumar­byrjun árið 2011.

Öll þessi fjögur flug­félög ætluðu að halda uppi daglegum ferðum hingað í sumar líkt og þau hafa gert síðustu ár. Með þessum breyt­ingum verður Icelandair eitt um flugið milli Íslands og Norður-Ameríku í sumar eins og staðan er í dag.

Samkvæmt athugun Túrista þá er áætl­un­ar­flug evrópskra flug­fé­laga Íslands ennþá með nær óbreyttu sniði frá því sem tilkynnt var um áður en kórónu­veirukreppan skall á. Eins og gefur að skilja getur það breyst áður flug­félög starf­semi sinni í gang á ný.


Viltu styðja Túrista?

Nú þegar virki­lega á reynir þá stendur Túristi vaktina frá morgni til kvölds. Ef þú ert einn þeirra lesenda sem finnst gagn í skrifum Túrista þá væri ómet­an­legt ef þú myndir leggja útgáf­unni lið. Smelltu hér fyrir nánari upplýs­ingar.