Hagnaður þrátt fyrir samdrátt á öllum sviðum

Farþegum á flugvöllum landsins fækkaði í fyrra og það voru færri þotur um íslenskt flugstjórnarsvæði. Engu að síður var rekstur Isavia réttum megin við núllið.

Farþegum á Keflavíkurflugvelli fækkaði um 26 prósent í fyrra. Mynd: Isavia

Hagnaðurinn af rekstri hins opinbera Isavia, sem rekur flugvelli landsins, nam 1,2 milljörðum króna eftir skatta í fyrra. Það er lækkun um 3,1 milljarð króna frá fyrra ári samkvæmt því sem segir í tilkynningu. Þar kemur fram að þegar tillit er tekið til niðurfærslu á viðskiptakröfum vegna falls Wow air nemur lækkunin milli ára um 1,2 milljarði króna. „Tekjur ársins lækkuðu um 3,3 milljarða, sem er um 8 prósent samdráttur á milli ára. Handbært fé nam um 9,2 milljörðum króna í árslok 2019,“ segir í tilkynningu.

Í fyrra fækkaði þeim farþegum sem fóru um Keflavíkurflugvöll um 26 prósent og samdrátturinn á öðrum flugvöllum landsins nam 11,4 prósentum. Á sama tíma dróst umferðin um hið íslenska úthafsflugstjórnarsvæði saman um 7,5 prósent.

„Árið 2019 var fyrir margar sakir viðburðaríkt. Wow air féll á fyrri hluta ársins og stuttu síðar voru Boeing 737 MAX vélar Icelandair kyrrsettar. Allt hafði þetta mikil áhrif á fjölda farþega og þannig á rekstur samstæðu Isavia,“ segir Sveinbjörn Indriðason, forstjóri Isavia, í tilkynningu. Hann bætir við að vegna útbreiðslu kórónaveirunnar sé gríðarmikil óvissa með framhaldið. „Það eina sem við vitum er að áhrifin verða mikil. Fjárhagsleg staða félagsins er sterk en það er ljóst að við, eins og önnur fyrirtæki, þurfum að bretta upp ermarnar til að komast heil í gegnum þessa erfiðleika.“

Á aðalfundi Isavia var stjórn félagsins endurkjörin en hana skipa fulltrúar fimm þeirra flokka sem sæti eiga á Alþingi. Orri Hauksson frá Sjálfstæðisflokki, Eva Pandora Baldursdóttir fulltrúi Pírata, Framsóknarmaðurinn Matthías Páll Imsland, Nanna Margrét Gunnlaugsdóttir frá Miðflokki og Valdimar Halldórsson er stjórnarmaður VG.


Viltu styðja Túrista?

Nú þegar virkilega á reynir þá stendur Túristi vaktina frá morgni til kvölds. Ef þú ert einn þeirra lesenda sem finnst gagn í skrifum Túrista þá væri ómetanlegt ef þú myndir leggja útgáfunni lið. Smelltu hér fyrir nánari upplýsingar.