Kröfuhöfum Norwegian gert nýtt tilboð sem gildir fram á kvöld

Vonir stjórnenda Norwegian stóðu til að í dag fengist samþykki eigenda skuldabréfa í félaginu fyrir því að breyta stórum hluta skuldarinnar í eigið fé. Fresturinn var framlengdur til klukkan ellefu í kvöld.

Mynd: Norwegian

Taprekstur Norwegian hefur verið langvarandi og félagið hefur endurtekið fengið inn aukið hlutafé til að halda starfseminni gangandi. Og þegar Covid-19 lamaði allar flugsamgöngur þá var fljótt útséð með að Norwegian kæmist í gegnum krísuna. Af þeim sökum hafa stjórnendur þess unnið að því að sannfæra eigendur skuldabréfa í félaginu um að breyta kröfum sínum í hlutafé. Í staðinn frá þeir 41,7 prósent af hlutafé í flugfélaginu.

Samþykki skuldabréfaeigenda átti að liggja fyrir klukkan fjögur í dag, að norskum tíma, en stuttu áður en fresturinn rann út þá lagði Norwegian fram nýtt tilboð þar sem ekki virtist nægur hljómgrunnur fyrir því fyrra. Nýja tilboðið gildir til ellefu í kvöld og það felur meðal annars í sér sveigjanlegri skilmála um hvenær kröfuhafar geta selt hluti sína í Norwegian samkvæmt frétt E24.

Á sunnudag rennur svo út frestur sem flugvélaleigur og fjármögnunarfyrirtæki hafa til að ganga að þeim kostum sem stjórnendur Norwegian hafa lagt á borð fyrir þá. Á mánudaginn er svo röðin komin að hluthöfunum sjálfum. Eign þeirra í félaginu mun að mestu þurrkast út að öllu óbreyttu en þessar aðgerðir eru forsenda fyrir því að norska ríkið styðji við Norwegian með lánaábyrgðum.