Lækkuðu kaupverð hótelanna um nærri 1,5 milljarð króna

Berjaya Land Berhad sem keypti Icelandair hótelin fékk vænan afslátt af lokagreiðslunni.

Canopy by Hilton í miðborg Reykjavíkur tilheyrir Icelandair hótelunum. Mynd: Icelandair hotels

Það var í fyrra sem Icelandair Group seldi 75 prósent hlut í hótelfyrirtæki samsteypunnar til malasíska félagsins Berjaya Land Berhad. Í tilkynningu í lok síðasta árs sagði að lokagreiðslan vegna viðskiptanna, 40 milljónir dollara eða 4,9 milljarðar króna, yrðu greidd 28. febrúar í ár.

Þeirri lokagreiðslu var svo skipt í tvennt. Fyrri hlutinn greiddur á umsömdum tíma en sá seinni væri væntanlegur í lok maí. Fyrr í dag tilkynnti Icelandair aftur á móti að lokagreiðslan yrði innt af hendi á eftir og hún myndi nema  10,3 milljónum dollars í stað 20,3 milljóna dollara. Mismunurinn jafngildir nærri 1,5 milljarði króna miðað við gengi dagsins.

Þó ber að hafa í huga að gengi krónunnar hefur veikst töluvert vegna ástandsins sem nú ríkir vegna útbreiðslu kórónaveirunnar. Ef horft er til þeirrar krónutölu sem Icelandair setti sjálft, um síðustu áramót, á lokagreiðsluna þá nemur afslátturinn 900 milljónum króna.

Þessi hái afsláttur á lokagreiðslu vekur spurningar um hvort samningsstaða kaupandans hafi breyst honum svona verulega í vil síðustu daga og þá vegna þeirra neikvæðu áhrifa sem útbreiðsla Covid-19 veirunnar hefur valdið á flestum sviðum. Einnig gæti lausafjárstaða Icelandair haft þarna eitthvað að segja enda ljóst að flugfélög víða um heim eru í mjög þröngri stöðu nú þegar engar tekjur koma inn.


Viltu styðja Túrista?

Nú þegar virkilega á reynir þá stendur Túristi vaktina frá morgni til kvölds. Ef þú ert einn þeirra lesenda sem finnst gagn í skrifum Túrista þá væri ómetanlegt ef þú myndir leggja útgáfunni lið. Smelltu hér fyrir nánari upplýsingar.