Leggja til að ferðaskrifstofur borgi til baka á 20 árum

Samtök sænskra ferðaskrifstofa óska eftir opinberu láni til að standa straum af endurgreiðslum til viðskiptavina. Ef ekkert verður að gert þá gæti ferðaskrifstofurrekstur í landinu flust yfir til Danmerkur.

Ferðamenn í London. Mynd: Janis Oppliger / Unsplash

Ferðaskrifstofur í Svíþjóð skulda farþegum sínum um sex milljarða sænskra króna (87 milljarðar kr.) vegna ferða sem felldar hafa verið niður vegna heimsfaraldursins sem nú geysar. Þetta segja útreikningar félags sænskra ferðaskipuleggjenda sem leggja til að horft verði til þeirra aðgerða sem gripið hefur verið til í Danmörku til að ráða bót á sambærilegri skuldastöðu. Þar rekur hið opinbera sameiginlegan ábyrgðasjóð fyrir ferðaskrifstofur og sá fékk nýverið ríflega þrjátíu milljarða króna innspýtingu frá danska ríkinu.

Nú vilja Svíar að settur verði á stofn álíka sjóður í Svíþjóð þar sem ríkið leggur til stofnframlag sem dugar fyrir núverandi skuldum ferðaskrifstofanna við viðskiptavini sína. Upphæðin verður svo greidd til baka næstu tuttugu ár með því að leggja um 5 sænskar krónur á sölu flugmiða (um 70 kr.) og 25 sænskar á pakkaferðir (um 350 kr). Samkvæmt frétt Dagens Industri þá ætla Moderaterna, stærsti hægri flokkur Svíþjóðar, að mæla fyrir þessari leið á sænska þinginu ef ríkisstjórn landsins kemur ekki með betri tillögu að borðinu.

Sænskir ferðafrömuðir óttast að ef ekkert verði að gert þá muni ferðaskrifstofurekstur í Svíþjóð flytjast yfir til Danmerkur. Í því samhengi má benda á að þær fimm ferðaskrifstofur sem Arion banki á og rekur, á hinum Norðurlöndunum, heyra allar undir danskt eignarhaldsfélag, Travelco Nordic. Sala á því félagi var langt komin þegar kórónaveirukrísan skall á. Auk þess á Arion banki Heimsferðir en sú ferðaskrifstofa hefur lengi verið ein þeirra stærstu á íslenska markaðnum.


Viltu styðja Túrista?

Nú þegar virkilega á reynir þá stendur Túristi vaktina frá morgni til kvölds. Ef þú ert einn þeirra lesenda sem finnst gagn í skrifum Túrista þá væri ómetanlegt ef þú myndir leggja útgáfunni lið. Smelltu hér fyrir nánari upplýsingar.