Lítið eftir af innan­lands­fluginu

Eftirspurn eftir ferðum milli íslenskra flugvalla hefur dregist saman og hjá Air Iceland Connect eru ferðirnar nú færri og stærri flugvélum verið lagt.

„Áætlun okkar hefur minnkað veru­lega frá því sem ætti að vera vegna krís­unnar. Við erum núna eingöngu að fljúga með um 10 til 15 prósent af þeim farþega­fjölda sem við ættum að vera að fljúga með á þessum árstíma,” segir Árni Gunn­arsson, fram­kvæmda­stjóri Air Iceland Connect.

Að sögn Árna þá hefur flug­fé­lagið aðlagað áætl­unina að þessum aðstæðum. Núna er því aðeins boðið upp á tvær daglegar brott­farir til Akur­eyrar þrisvar til fjórum sinnum í viku. Hina daga er bara ein ferð.

„Til Egils­staða erum við að fljúga einu sinni á dag og til Ísafjarðar þrisvar í viku. Þetta fljúgum við allt á Q200 vél sem er eingöngu með 37 sæti en samt hefur sæta­nýt­ingin ekki verið nema að hámarki 50 prósent í flestum ferðum vegna lítillar eftir­spurnar,” bætir Árni við.

Auk þess að vera umsvifa­mesta flug­fé­lagið í innan­lands­fluginu þá stendur Air Iceland Connect einnig fyrir tíðum ferðum til Græn­lands. Þarlend yfir­völd hafa aftur á móti sett tíma­bundið bann við þeim samgöngum en flug­fé­lagið hefur þó farið frakt­flug til Græn­lands.

„Við erum stöðugt að fylgjast með þróun­inni og breyta áætlun eftir því sem eftir­spurnin breytist en það er óhætt að segja að þetta er mikið eftir­spurn­ar­fall hjá okkur,” segir Árni.

Fyrr í vikunni var tilkynnt að stór hluti starf­semi syst­ur­fé­lag­anna Icelandair og Air Iceland Connect yrði samþættur en flugrekst­urinn þó áfram aðskilinn. Samhliða þessu verður staða fram­kvæmda­stjóra Air Iceland Connect lögð niður og mun Árni taka við starfi sem fram­kvæmda­stjóri Iceland Travel á næstu vikum en sú ferða­skrif­stofa tilheyrir líka Icelandair samsteyp­unni.

Á sama tíma lætur Björn Víglundsson af störfum hjá Iceland Travel en hann tók þar við stjórn­artaumum eftir að Hörður Gunn­arsson hætti í fyrra.


Viltu styðja Túrista?

Nú þegar virki­lega á reynir þá stendur Túristi vaktina frá morgni til kvölds. Ef þú ert einn þeirra lesenda sem finnst gagn í skrifum Túrista þá væri ómet­an­legt ef þú myndir leggja útgáf­unni lið. Smelltu hér fyrir nánari upplýs­ingar.