Lítið eftir af innanlandsfluginu

Eftirspurn eftir ferðum milli íslenskra flugvalla hefur dregist saman og hjá Air Iceland Connect eru ferðirnar nú færri og stærri flugvélum verið lagt.

„Áætlun okkar hefur minnkað verulega frá því sem ætti að vera vegna krísunnar. Við erum núna eingöngu að fljúga með um 10 til 15 prósent af þeim farþegafjölda sem við ættum að vera að fljúga með á þessum árstíma,“ segir Árni Gunnarsson, framkvæmdastjóri Air Iceland Connect.

Að sögn Árna þá hefur flugfélagið aðlagað áætlunina að þessum aðstæðum. Núna er því aðeins boðið upp á tvær daglegar brottfarir til Akureyrar þrisvar til fjórum sinnum í viku. Hina daga er bara ein ferð.

„Til Egilsstaða erum við að fljúga einu sinni á dag og til Ísafjarðar þrisvar í viku. Þetta fljúgum við allt á Q200 vél sem er eingöngu með 37 sæti en samt hefur sætanýtingin ekki verið nema að hámarki 50 prósent í flestum ferðum vegna lítillar eftirspurnar,“ bætir Árni við.

Auk þess að vera umsvifamesta flugfélagið í innanlandsfluginu þá stendur Air Iceland Connect einnig fyrir tíðum ferðum til Grænlands. Þarlend yfirvöld hafa aftur á móti sett tímabundið bann við þeim samgöngum en flugfélagið hefur þó farið fraktflug til Grænlands.

„Við erum stöðugt að fylgjast með þróuninni og breyta áætlun eftir því sem eftirspurnin breytist en það er óhætt að segja að þetta er mikið eftirspurnarfall hjá okkur,“ segir Árni.

Fyrr í vikunni var tilkynnt að stór hluti starfsemi systurfélaganna Icelandair og Air Iceland Connect yrði samþættur en flugreksturinn þó áfram aðskilinn. Samhliða þessu verður staða framkvæmdastjóra Air Iceland Connect lögð niður og mun Árni taka við starfi sem framkvæmdastjóri Iceland Travel á næstu vikum en sú ferðaskrifstofa tilheyrir líka Icelandair samsteypunni.

Á sama tíma lætur Björn Víglundsson af störfum hjá Iceland Travel en hann tók þar við stjórnartaumum eftir að Hörður Gunnarsson hætti í fyrra.


Viltu styðja Túrista?

Nú þegar virkilega á reynir þá stendur Túristi vaktina frá morgni til kvölds. Ef þú ert einn þeirra lesenda sem finnst gagn í skrifum Túrista þá væri ómetanlegt ef þú myndir leggja útgáfunni lið. Smelltu hér fyrir nánari upplýsingar.