Mismunandi sveigjanleg flugfélög

Þeir sem panta sér farmiða út í heim næstu daga eiga meiri möguleika á gera breytingar á ferðaáætlun en almennt leyfist. Reglurnar eru þó ólíkar milli flugfélaga.

Mynd: Gerrie Van Der Walt / Unsplash

Það eru skiljanlega fáir ef engir í ferðahug þessa dagana vegna óvissunnar sem nú ríkir. Flugfélögin reyna þó með ólíkum hætti að fá fólk til að bóka nýjar ferðir fram í tímann með því að heimila breytingar, líka á ódýrustu miðunum. Farþegarnir þurfa þó að borga mismuninn á nýja og gamla flugfargjaldinu þegar að því kemur.

Skilyrði flugfélaganna hvað þennan nýja sveigjanleika varðar eru mjög mismunandi. Hjá Icelandair fá þeir sem ganga frá pöntun fyrir lok apríl að breyta dagsetningum en þó aðeins ef ferðalaginu lýkur í ár. Aftur á móti er ekki hægt að breyta um áfangastað hjá Icelandair en það má aftur á móti hjá British Airways.

Hjá því félagi nær sveigjanleikinn til nýrra bókanna sem gengið er frá fyrir 31. maí. Hjá Norwegian er einnig miðað við lok maí en þar verður ferðalaginu að ljúka fyrir lok nóvember í ár.

Lufthansa býður aðeins upp á niðurfellingu á breytingagjöldum á nýjum bókunum sem gengið er frá fram í lok næstu viku. Hjá þýska flugfélaginu eru þó boðaðir nýir skilmálar fljótlega. Hjá SAS fá þeir sem bóka farmiða í dag möguleika á að breyta honum fram í enda mars á næsta ári en þá þarf líka að ganga frá pöntunum fyrir mánaðamótin.

Hjá Wizz Air og easyJet, umsvifamestu erlendu flugfélögum á Keflavíkurflugvelli, verður að bóka svokölluð flex fargjöld til að mega breyta. Þessi flugmiðar geta verið margfalt dýrari en þessi ódýrustu. Ennþá hafa þessi tvö lággjaldaflugfélög því ekki gengið eins langt og keppinautarnir hvað breytingar varðar.

Hvatinn við að bjóða þennan aukna sveigjanleika hefur kannski dvínað hjá flugfélögunum því nú munu kreditkortafyrirtæki mörg hver vera farin að halda eftir stórum hluta sölunnar í stað þess að láta peningana renna beint til flugfélaganna. Þetta er liður í því að tryggja kreditkortafyrirtækin fyrir tapi ef flugfélögin fara í þrot. Því ef það gerist þá á kúnninn kröfu á að kortafyrirtækið endurgreiði.


Viltu styðja Túrista?

Nú þegar virkilega á reynir þá stendur Túristi vaktina frá morgni til kvölds. Ef þú ert einn þeirra lesenda sem finnst gagn í skrifum Túrista þá væri ómetanlegt ef þú myndir leggja útgáfunni lið. Smelltu hér fyrir nánari upplýsingar.