Play komið með nægt fjármagn til að hefja flug

Ef staðan væri önnur í heimsmálunum þá gæti Play hafið áætlunarflug nú þegar. Ljóst er að óvissa í fluggeiranum hefur ekki bara dregið úr samkeppni heldur líka fjölgað framboði á leiguflugvélum frá því sem var þegar Play var fyrst kynnt til sögunnar.

Tölvuteikning: Play

Það var í byrjun nóvember í fyrra sem forsvarsmenn Play kynntu áform sín um stofnun nýs íslensks lággjaldaflugfélags. Þá var ætlunin að hefja flugrekstur strax í byrjun þessa árs en þau áform gengu ekki eftir og ljóst má vera að aðstandendur verkefnisins prísa sig sæla fyrir það í dag. Heimsfaraldurinn sem nú gengur yfir hefur nefnilega lamað allar flugsamgöngur og stjórnendur flugfélaga róa nú lífróður.

Samkvæmt áreiðanlegum heimildum Túrista býður Play nú átekta með að taka fyrstu flugvélina í notkun en ef samgöngur væru með eðlilegum hætti þá gæti félagið tekið til starfa nú þegar. Play hefur samkvæmt sömu heimildum svigrúm til að skala sig upp hratt því aðstæður á flugmarkaði í dag eru þannig að félagið getur fengið nokkurn fjölda nýlegra Airbus A320 Neo með tiltölulega litlum fyrirvara. Innanbúðarmaður lýkir núverandi stöðu við að standa á rásmarkinu í langhlaupi, búinn að æfa, tilbúinn til keppni en rásbyssan standi á sér. Play verði því tilbúið í að styðja við uppbyggingu ferðaþjónustunnar þegar að því kemur eins og viðkomandi kemst að orði.

Upphaflega áform PLAY gerðu ráð fyrir að félagið myndi hefja flug til sex evrópskra áfangastaða, þar á meðal Alicante og Tenerife. Norwegian, sem hefur verið mjög umsvifamikið í Íslandsflugi frá þessum tveimur spænsku borgum, mun ekki halda ferðunum áfram næstu mánuði miðað við nýja viðskiptaáætlun. Þar með minnkar framboð á flugi til þessara staða en auðvitað er ennþá ekkert hægt að segja til um hvenær hægt verður að fljúga á ný milli Íslands og Spánar eða til annarra landa.

Þess má geta að Mannlíf fjallaði um stöðu Icelandair og Play í frétt í morgun.