Samdráttur í kortaveltu eftir þjóðum

Nú þegar landamæri hafa lokast og mælst er til að fólk haldi sig heima þá fækkar ferðamönnum hratt. Nýjar tölur um kortaveltu útlendinga hér á landi í endurspegla þetta ástand.

Erlendir ferðamenn í Reykjavík. Mynd: Gunnlaugur Rögnvaldsson

Kortavelta erlendra ferðamanna án flugsamgangna dróst snarpt saman í mars eða um 60 prósent samanborið við fyrra ár. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Rannsóknarsetri verslunarinnar. Þar segir að heildarkortavelta erlendra korta hafi numið 6,95 milljörðum kr. í síðasta mánuði og leita þurfi allt aftur til janúar árið 2015 til þess að finna lægri kortaveltu.

„Verulegur samdráttur var í mars, í öllum flokkum kortaveltu sem Rannsóknasetrið birtir. Mestur hlutfallslegur samdráttur varð í flokkunum ýmis ferðaþjónusta, 75,8 prósent en sá flokkur inniheldur meðal annars skipulagðar ferðir og þjónustu ferðaskrifstofa,“ segir í tilkynningu.

Þar kemur einnig fram að í krónum talið muni mest um samdrátt flokknum „ýmis ferðaþjónusta“ auk gistiþjónustu. „Að öllu jöfnu eru þessir tveir flokkar þeir veltuhæstu í gögnum Rannsóknasetursins yfir erlenda kortaveltu. Velta í flokki gistiþjónustu nam 1,8 milljörðum kr. í mars 2020 og lækkaði um 2,53 milljarða á milli ára og velta í flokknum ýmis ferðaþjónusta nam tæpum 800 milljónum og dróst saman um 2,5 milljarða frá mars í fyrra.“

Erlend kortavelta í veitingaþjónusta nam 931 milljónum kr. og dróst saman um 58 prósent á milli ára. Kortavelta bílaleiga dróst saman um 64 prósent og nam 565 milljónum kr. í mars eða einum milljarði króna lægra í ár en í fyrra.

Hér má sjá hvernig kortaveltan í mars breyttist hlutfallslega eftir þjóðernum.