Segja forsendur flugrekstrar brostnar

Um helmingur starfsmanna SAS flugfélagsins á von á uppsagnarbréfi þar sem eftirspurn eftir flugferðum er að mestu horfin og þar með sé fótum kippt undan rekstrinum.

Rickard Gustafson forstjóri SAS. Mynd: SAS

Stjórnendur SAS undirbúa nú uppsagnir um fimm þúsund starfsmanna en um ellefu þúsund stöðugildi eru hjá félaginu í dag. Ástæðan fyrir aðgerðunum eru þær afleiðingar sem heimsfaraldurinn sem nú geysar hefur haft á reksturinn. Í tilkynningu sem félagið sendi frá sér nú í morgunsárið kemur fram að búast megi við að það taki einhver ár þangað til eftirspurn eftir flugferðum verður álíka og hún var áður en kórónuveirukreppan hófst. Af þeim sökum verður að laga reksturinn að breyttum aðstæðum og uppsagnirnar eru hluti af því ferli.

„Vegna Covid-19 faraldursins hefur eftirspurn eftir flugferðum horfið og þar með viðskiptagrunnur flugfélaga,“ segir jafnframt í  tilkynningunni. Þar er haft eftir Rickard Gustafson, forstjóra SAS, að markmiðið sé áfram að vera leiðandi flugfélag í Skandinavíu og tryggja samgöngur innan svæðisins en einnig tengsl þess við útlönd. En til að geta staðið undir þessu þá þurfi að draga úr kostnaði miðað við núverandi aðstæður. Forstjórinn undirstrikar að ef eftirspurn tekur við sér fyrr þá verði félagið tilbúið til að auka umsvifin fljótt á ný.

SAS er með umfangsmikla starfsemi í öllum þremur löndum Skandinavíu og dreifast uppsagnirnar nokkuð jafnt á milli landa. Danska og sænska ríkið fara samanlagt með um 29 prósent hlut í flugfélaginu og ætla ríkisstjórnir beggja landa að gangast í ábyrgðir fyrir lán til félagsins. Auk þess getur SAS fengið samskonar hjálp frá norskum stjórnvöldum jafnvel þó hlutur Norðmanna í flugfélaginu hafi verið seldur fyrir nærri tveimur árum síðan.

Helsti keppinautur SAS, norska lággjaldaflugfélagið Norwegian, tilkynnti í gær að félagið myndi leggja nærri öllum sínum flugvélum fram í mars á næsta ári. Þetta er liður í því að koma félaginu á réttan kjöl en í næstu viku ræðst hvort kröfuhafar félagsins eru tilbúnir til að breyta stórum hluta af skuldum í eigið fé.


Viltu styðja Túrista?

Nú þegar virkilega á reynir þá stendur Túristi vaktina frá morgni til kvölds. Ef þú ert einn þeirra lesenda sem finnst gagn í skrifum Túrista þá væri ómetanlegt ef þú myndir leggja útgáfunni lið. Smelltu hér fyrir nánari upplýsingar.