Segja upp um helmingi starfsmanna

Tvö þúsund starfsmenn Icelandair missa vinnuna hjá flugfélaginu í kjölfar aðgerða til að takast á við erfiða stöðu vegna heimsfaraldursins sem nú geysar.

Mynd: Icelandair

Stærsta ferðaþjónustufyrirtæki landsins, Icelandair Group, tilkynnti nú fyrir stundu um yfirgripsmiklar aðgerðir hjá félaginu sem taka gildi um mánaðamótin. Um er að ræða uppsagnir rúmlega tvö þúsund starfsmanna og ná þær til allra hópa innan félagsins en flestar eru þær meðal áhafna, starfsfólks í viðhaldsþjónustu auk flug- og farþegaþjónustu. Tilgangurinn með þessum aðgerðum er að bregðast við þeirri stöðu sem flugfélagið stendur frammi fyrir vegna útbreiðslu COVID-19 farsóttarinnar eins og segir í tilkynningu.

Um fjögur þúsund stöðugildi voru hjá Icelandair Group eftir að gengið var frá sölu á 75 prósent hlut í hótelfyrirtæki fyrirtæksins í síðasta mánuði. Þeir sem starfa áfram hjá félaginu eru langflestir í skertu starfshlutfalli og aðrir í fullu starfi með skert laun. Mikil óvissa ríkir um nánustu framtíð og eru aðgerðirnar liður í að búa félagið undir órætt tímabil þar sem starfsemi þess verður í lágmarki. Á sama tíma verður lögð áhersla á að halda uppi grunnstarfsemi á öllum sviðum til þess að tryggja þann sveigjanleika sem þarf til að félagið geti brugðist hratt við um leið og markaðir opnast á ný,“ segir í tilkynningu.

Til viðbótar við þessar aðgerðir hafa breytingar verið gerðar á skipulagi félagsins og fækkar framkvæmdastjórum úr átta í sjö. Einnig hafa talsverðar skipulagsbreytingar verið gerðar innan sviða og deilda fyrirtækisins og við það fækkar stjórnendum í efstu lögum um nítján.

„Þetta eru mjög erfiðar aðgerðir en því miður nauðsynlegar. Það er gríðarleg óvissa framundan og við þurfum að undirbúa okkur undir takmarkaða starfsemi hjá félaginu um óákveðinn tíma. Við vonumst til að aðstæður í heiminum fari að batna sem fyrst og að við getum boðið sem stærstum hluta starfsmanna sem um ræðir vinnu aftur. Markmiðið með þessum aðgerðum er jafnframt að tryggja grunnstarfsemi félagsins og halda nauðsynlegum sveigjanleika til að geta brugðist hratt við þegar eftirspurn tekur við sér á ný,“ er haft eftir Boga Nils Bogasyni, forstjóra Icelandair.