Selja ferðaskrifstofurnar þegar aðstæður leyfa

Arion banki rekur ennþá sex af þeim sjö ferðaskrifstofum sem áður tilheyrðu Primera Travel Group. Fyrirtækin njóta góðs af þeim aðgerðum boðaðar hafa verið á hinum Norðurlöndunum til að styðja við rekstur ferðaþjónustufyrirtækja.

Skjámynd af heimasíðu Travelco en það fyrirtæki heldur utan um eign Arion á fimm norrænum ferðaskrifstofum. Bankinn á líka Heimsferðir.

Það var í júní í fyrra sem Arion banki leysti til sína þær sjö norrænu ferðaskrifstofur sem voru hluti af Primera Travel samsteypu Andra Más Ingólfssonar. Þá var yfirlýst markmið að koma fyrirtækjunum öllum í hendur nýrra eigenda sem fyrst. Ennþá hefur aðeins tekist að selja Terra Nova en sú ferðaskrifstofa sérhæfir sig í skipulagningu Íslandsferða. Kaupandinn var Nordic Visitor.

Viðræður voru í gangi við erlendan fjárfestingasjóð um kaup á þeim fimm ferðaskrifstofum sem Arion banka rekur á hinum Norðurlöndunum. Heimsfaraldurinn sem nú geysar setti hins vegar strik í reikninginn. Heimsferðir, sem hafa lengi verið ein af stærstu ferðaskrifstofunum hér á landi, eru líka áfram í eigu Arion.

Aðspurður um stöðu mála þá segir Haraldur Guðni Eiðsson, upplýsingafulltrúi Arion, að markmið bankans varðandi ferðaskrifstofurnar er óbreytt og þær verði seldar þegar aðstæður leyfa. „Fram að því mun rekstur ferðaskrifstofanna halda áfram. Þær eins og aðrar ferðaskrifstofur á Norðurlöndum munu njóta góðs af þeim víðtæku aðgerðum sem stjórnvöld þar, ekki síst í Danmörku, eru að grípa til til að aðstoða ferðaþjónustufyrirtæki.“

Meðal þeirra efnahagsaðgerða sem danska ríkisstjórnin hefur gripið til vegna ástandsins sem nú ríkir er að styrkja ábyrgðasjóð ferðasala um 1,5 milljarð danskra króna. Það jafngildir um 30 milljörðum íslenskra króna og verður sú upphæð meðal annars nýtt til að endurgreiða neytendum þær ferðir sem fella hefur þurft niður vegna ferðabanna og lokaðra landamæra.

Íslenskar ferðaskrifstofur, bæði þær sem selja ferðir til útlanda og Íslandsferðir til útlendinga, eru aftur á móti verri stöðu líkt og kom fram í viðtölum Túrista við forstjóra Úrval-Útsýn og stjórnarformann Heimsferða.


Viltu styðja Túrista?

Nú þegar virkilega á reynir þá stendur Túristi vaktina frá morgni til kvölds. Ef þú ert einn þeirra lesenda sem finnst gagn í skrifum Túrista þá væri ómetanlegt ef þú myndir leggja útgáfunni lið. Smelltu hér fyrir nánari upplýsingar.