Setja flugreksturinn í nýtt félag

Ítalskir ráðamenn hafa ákveðið að taka rekstur Alitalia endanlega yfir en þó í nýju félagi.

alitalia nytt
Myndir: Alitalia

Þó síðasti áratugur hafi reynst flestum flugfélögum ábatasamur þá hefur rekstur Aliatlia, stærsta flugfélags Ítalíu, verið erfiður. Og síðustu ár hefur félagið verið í einskonar gjörgæslu hjá ítalska ríkinu eftir að eigendur flugfélagsins Etihad, frá Abu Dhabi, gáfust upp rekstrinum.

Með útbreiðsla Covid-19 varð svo endanlega út um öll áform um að selja félagið en Delta, easyJet og Lufthansa voru meðal fyrirtækja sem orðuð voru við kaup á Alitalia.

Vegna stöðunnar sem nú er uppi hefur ítalska ríkisstjórnin ákveðið að taka Alitalia að öllu leyti til að bjarga því frá falli. Samkvæmt frétt Reuters byggir aðgerðaráætlun stjórnvalda á því að ríkið stofnar nýtt fyrirtæki í byrjun júní sem tekur í framhaldinu yfir rekstur Alitalia. Flugfloti félagsins verður skorin niður úr 113 flugvélum niður í níutíu og þeir tæplega 12 þúsund starfsmenn sem vinna hjá Alitalia í dag fái vinnu hjá nýja félaginu. Ekki fylgir sögunni hvað verður um gamla rekstrarfélagið og skuldbindingar þess.

Þess má geta að bandaríska félagið sem nú vinnur að endurreisn WOW air lýsti yfir áhuga á að taka Alitalia yfir nýverið. Ekkert hefur orðið af þeim áformum.