Spá um helmings samdrætti í flugi á seinni hluta ársins

Ef nýjasta mat alþjóðasamtaka flugfélaga gengur eftir þá gæti sætisframboðið hjá Icelandair dregist saman um nærri sjötíu prósent í sumar.

Mynd: Isavia

Í byrjun júlí þá mun samdráttur í flugsamgöngum nema um áttatíu prósentum í samanburði við sama tíma í fyrra. Síðan eykst traffíkin en verður  ennþá helmingi minni í október. Þetta kemur fram í nýjustu spá greinenda IATA, alþjóðasamtaka flugfélaga.

Þar segir að fyrstu batamerkin verði þegar innanlandsflug hefst á ný en lengri bið verði eftir því að alþjóðaflug komist almennilega í gang. Rætist þessi spá þá gæti það tekið ennþá lengri tíma fyrir flug til og frá Íslandi að glæðast á ný.

Segja má að það sé samhljómur í spá IATA og þeim áætlunum sem forstjóri AirFrance/KLM samsteypunnar kynnti í vikunni. Hann segist reikna með að flugáætlun fyrirtækisins í júní verði rétt um fimmtungur af því sem hún var í sumarbyrjun í fyrra. Í júlí fari framboðið svo upp í fjörutíu prósent og nái sextíu prósentum í ágúst.

Stjórnendur Icelandair gáfu það út strax í byrjun mars að framboð sumarsins myndi dragast saman um fjórðung. Samdrátturinn þar á bæ verður aftur á móti í kringum sjötíu prósent í sumar ef þróunin verður álíka hjá Icelandair og IATA reiknar með í flugi á heimsvísu.

Niðursveiflan gæti orðið ennþá meiri hjá íslenska flugfélaginu því sem fyrr segir þá gerir mat IATA ráð fyrir að innanlandsflug dragi vagninn í upphafi. Og þó Air Iceland Connect sé nú hluti af Icelandair þá eru umsvifin þar á bæ lítil í samanburði við alþjóðaflugið.

Þegar spá IATA er svo heimferð upp á síðustu sjö mánuði síðasta árs hjá Icelandair þá mun samdrátturinn í sætisframboði á því tímabili nema á bilinu 55 til 60 prósent. Það ber þó að hafa í huga að ennþá er óvissan mikil um framvindu mála og því vissara að taka öllum spám með miklum fyrirvara.


Viltu styðja Túrista?

Nú þegar virkilega á reynir þá stendur Túristi vaktina frá morgni til kvölds. Ef þú ert einn þeirra lesenda sem finnst gagn í skrifum Túrista þá væri ómetanlegt ef þú myndir leggja útgáfunni lið. Smelltu hér fyrir nánari upplýsingar.