Stærsta flugfélag heims hættir Íslandsflugi

Síðustu tvo sumur hafa þotur American Airlines flogið hingað frá bandarísku borginni Dallas. Nú í sumar átti að færa ferðirnar hingað til Philadelphia en ekkert verður af því.

Mynd: American Airlines

Í borginni Philadelphia á austurströnd Bandaríkjanna hefur American Airlines verið að auka umsvif sín og sérstaklega í flugi til Evrópu. Vegna ástandsins sem nú ríkir vegna útbreiðslu kórónaveirunnar þá hafa stjórnendur flugfélagsins ákveðið að fella niður flug frá Philadelphia til átta evrópskrá áfangastaða, þar á meðal daglegar brottfarir til Íslands. Þetta kemur fram í uppfærðri sumaráætlun félagsins.

Áætlun American Airlines, sem er stærsta flugfélag heims í farþegum talið, gerði ráð fyrir að sætaframboð í Íslandsfluginu yrði um 41 þúsund sæti frá júní og fram í september.

Nú þegar American Airlines hverfur á braut þá er Icelandair á ný eitt um flug milli Philadelphia og Keflavíkurflugvallar.


Viltu styðja Túrista?

Nú þegar virkilega á reynir þá stendur Túristi vaktina frá morgni til kvölds. Ef þú ert einn þeirra lesenda sem finnst gagn í skrifum Túrista þá væri ómetanlegt ef þú myndir leggja útgáfunni lið. Smelltu hér fyrir nánari upplýsingar.