Stjórnendur Icelandair vinna náið með íslenskum stjórnvöldum

Ljóst er að lausafjárstaða Icelandair Group fer undir þau viðmið sem hingað til hefur verið unnið samkvæmt. Af þeim sökum hefur fyrirtækið leitað ráðgjafar þriggja innlendra banka. Ríkið kemur einnig að vinnunni.

Mynd: Icelandair

Á næstu vikum verður lögð áhersla á að styrkja fjárhagsstöðu Icelandair samsteypunnar til lengri tíma og hefur fyrirtækið ráðið Kviku, Íslandsbanka og Landsbankann sem ráðgjafa til að hefja skoðun á mögulegum leiðum að því marki. Í tilkynningu frá Icelandair segir að markmiðið sé að styrkja samkeppnishæfni félagsins til framtíðar með því að stuðla að sterkri fjárhagsstöðu og lægri einingakostnaði.

„Stjórnendur Icelandair Group munu einnig vinna náið með íslenskum stjórnvöldum í þessu ferli,“ segir í tilkynningu. Þar er þessi samvinna ekki útskýrð nánar en áður hefur komið fram að stjórnvöld munu greiða félaginu að hámarki 100 milljónir fyrir að tryggja lágmarks flugsamgöngur til og frá landinu.

Stjórnendur Icelandair Group gera ráð fyrir því að flugáætlun félagsins muni dragast saman um að minnsta kosti fjórðung yfir sumartímann í ár. Í tilkynningu Icelandair segir ljóst sé að lausafjárstaða félagsins muni skerðast og fara undir núverandi viðmið sem nemur 29 milljörðum króna á núverandi gengi eða um 200 milljónum bandaríkjadala.

Í því samhengi má rifja upp að samkvæmt kauphallartilkynningu Icelandair 15. mars sl. þá var lausafjárstaða félagsins þann dag um 300 milljónir dollara. Staðan hefur því versnað hratt þrátt fyrir sölu á 75 prósent hlut í hótelum samsteypunnar.

„Öll flugfélög heims standa nú frammi fyrir því krefjandi verkefni að styrkja rekstrargrundvöll sinn til framtíðar. Við vitum að á einhverjum tímapunkti mun flug komast aftur í eðlilegt horf og því viljum við vera vel í stakk búin til að sækja fram og nýta þau tækifæri sem þá verða fyrir hendi. Til að ná þeirri stöðu er nauðsynlegt að gera viðeigandi breytingar á kostnaðaruppbyggingu félagsins, styrkja fjárhagsstöðu þess og leita allra leiða til að styrkja samkeppnishæfi þess til frambúðar,“ segir Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair Group, í tilkynningu.


Viltu styðja Túrista?

Nú þegar virkilega á reynir þá stendur Túristi vaktina frá morgni til kvölds. Ef þú ert einn þeirra lesenda sem finnst gagn í skrifum Túrista þá væri ómetanlegt ef þú myndir leggja útgáfunni lið. Smelltu hér fyrir nánari upplýsingar.