Svíar beðnir um að halda sig innanlands fram á sumar

Utanríkisráðuneyti Svíþjóðar hefur framlengt ferðaviðvörun sína fram til 15. júní.

Frá Stokkhólmi. Mynd: Henrik Trygg / Visit Stockholm

Það var um miðjan mars sem Svíar, Íslendingar og fjöldi annarra ríkja gáfu út þau tilmæli að íbúar landanna ferðuðust ekki til útlanda að óþörfu fyrr en eftir páska. Á sama tíma voru þeir þegnar sem staddir voru í útlöndum beðnir um að snúa heim.

Rétt í þessu framlengdi sænska utanríkisráðuneytið svo gildistíma þessara tilmæla um tvo mánuði eða til 15. júní. Haft er eftir Ann Linde, utanríkisráðherra Svíþjóðar, í frétt Svenska dagbladet að nú sé ekki rétti tíminn til að ferðast, hvorki innanlands né utan.

Nú er að sjá hvort stjórnvöld hér á landi framlengi einnig núgildandi ferðaviðvörun. Ljóst er að það gæti orðið til þess að auka enn frekar hina miklu pressu sem ferðageirinn er undir dagana um endurgreiðslur á ferðum sem fella hefur þurft niður vegna lokaðra landamæra eða ferðaviðvaranna stjórnvalda.