Svona var samdrátturinn í mars hjá norrænu flugfélögunum

Tugprósenta fall í farþegafjölda og sætanýtingin miklu verri en áður eins og við var að búast. Ekki er útlitið betra fyrir apríl.

Rétt um sex af hverjum tíu sætum í þotum Icelandair í mars voru bókuð en þar með er ekki sagt að farþegarnir hafi mætt í flugið. MYND: ICELANDAIR

Fluggeirinn hefur farið sérstaklega illa út úr heimsfaraldrinum sem nú geysar og það sést vel á farþegatölum stærstu flugfélaga Norðurlanda. Þau hafa nú öll birt uppgjör fyrir mars og fækkaði farþegum þeirra umtalsvert í þeim mánuði og sætanýtingin féll sömuleiðis.

Hjá Icelandair var nýtingin 62 prósent en hlutfallið var hærra hjá Norwegian en aftur á móti lægra hjá bæði Finnair og SAS. Hafa ber í huga að flugfélögin miða hér við seld sæti en gera má ráð fyrir að fjöldi farþega hafi ekki mætt í flug í mars vegna ástandsins.

Fyrri hluta marsmánaðar náðu félögin að halda úti fleiri ferðum en á þeim seinni. Og þar sem ástandið hefur versnað nú í apríl má gera ráð fyrir að farþegafjöldinn muni dragast ennþá meira saman í þessum mánuði. Þannig gaf forstjóri SAS það út í morgun að útlit væri fyrir að allt alþjóðaflug félagsins myndi liggja niðri í apríl og starfsemin þá takmarkast við innanlandsflug í Noregi og Svíþjóð.


Viltu styðja Túrista?

Nú þegar virkilega á reynir þá stendur Túristi vaktina frá morgni til kvölds. Ef þú ert einn þeirra lesenda sem finnst gagn í skrifum Túrista þá væri ómetanlegt ef þú myndir leggja útgáfunni lið. Smelltu hér fyrir nánari upplýsingar.