Þýska ríkið gæti eignast hlut í Luft­hansa

Lufthansa samsteypan rekur nokkur stór flugfélög á meginlandi Evrópu. Félagið er í miklum fjárhagsvanda og lán frá þýskum stjórnvöldum nægir mögulega ekki.

Mynd: Lufthansa

Níu af hverjum tíu flug­vélum Luft­hansa hefur verið lagt vegna krís­unnar sem kóróna­veiran hefur valdið. Staðan er álíka á dótt­ur­fé­lögum þýska flug­fé­lagsins í Sviss, Aust­ur­ríki, Belgíu og Ítalíu. Á sama tíma koma ekki inn neinar tekjur.

Staðan er orðin það slæm að viðræður munu standa yfir um hvernig þýska ríkis­stjórnin geti komið félaginu til bjargar. Samkvæmt frétt Reuters er ekki aðeins horft til lána­ábyrgðar. Til skoð­unar er að þýska ríkið verði hlut­hafi í þessari stærstu flug­fé­laga­samteypu Evrópu og muni um leið leggja fyrir­tækinu til nokkra millj­arða evra.

Luft­hansa er ekki eina stóra flug­fé­lagið sem nú stendur á brauð­fótum. Stjórn­endur stærstu flug­fé­laga Banda­ríkj­anna eru þessa dagana að fara yfir hvort og þá hvernig staðið verði að umsókn úr þeim björg­un­ar­sjóði sem banda­rísk yfir­völd hafa eyrna­merkt flug­geir­anum þar í landi.

Í Skandi­navíu hafa ríkis­stjórnir land­anna þriggja allar boðið SAS lána­ábyrgðir og Norwegian vinnur að því að uppfylla þau skil­yrði sem norsk stjórn­völd hafa sett því félagi.

Ekkert hefur heyrst af mögu­legri beinni aðkomu íslenska ríkisins að Icelandair eða flugrekstri almennt.