Þýska ríkið gæti eignast hlut í Lufthansa

Lufthansa samsteypan rekur nokkur stór flugfélög á meginlandi Evrópu. Félagið er í miklum fjárhagsvanda og lán frá þýskum stjórnvöldum nægir mögulega ekki.

Mynd: Lufthansa

Níu af hverjum tíu flugvélum Lufthansa hefur verið lagt vegna krísunnar sem kórónaveiran hefur valdið. Staðan er álíka á dótturfélögum þýska flugfélagsins í Sviss, Austurríki, Belgíu og Ítalíu. Á sama tíma koma ekki inn neinar tekjur.

Staðan er orðin það slæm að viðræður munu standa yfir um hvernig þýska ríkisstjórnin geti komið félaginu til bjargar. Samkvæmt frétt Reuters er ekki aðeins horft til lánaábyrgðar. Til skoðunar er að þýska ríkið verði hluthafi í þessari stærstu flugfélagasamteypu Evrópu og muni um leið leggja fyrirtækinu til nokkra milljarða evra.

Lufthansa er ekki eina stóra flugfélagið sem nú stendur á brauðfótum. Stjórnendur stærstu flugfélaga Bandaríkjanna eru þessa dagana að fara yfir hvort og þá hvernig staðið verði að umsókn úr þeim björgunarsjóði sem bandarísk yfirvöld hafa eyrnamerkt fluggeiranum þar í landi.

Í Skandinavíu hafa ríkisstjórnir landanna þriggja allar boðið SAS lánaábyrgðir og Norwegian vinnur að því að uppfylla þau skilyrði sem norsk stjórnvöld hafa sett því félagi.

Ekkert hefur heyrst af mögulegri beinni aðkomu íslenska ríkisins að Icelandair eða flugrekstri almennt.