Verður barátta um hverja einustu gistinótt

Fjölmiðlar og samfélagsmiðlar munu fyllast af ferðaauglýsingum um leið og heimfaraldrinum lýkur.

kaupmannahofn ferdamadur Morten Jerichau
Ferðamaður við Amalienborg í Kaupmannahöfn. Mynd: Morten Jerichau / Ferðamálaráð Kaupmannahafnar

Það eru ekki bara sérfræðingar Íslandsstofu sem vinna núna að markaðsherferð sem setja á í loftið um leið og landamæri opnast á ný. Flest önnur lönd eru í sama gír segir Allan Agerholm, stjórnarformaður ferðamálaráðs Dana. Hann reiknar því með harðri samkeppni um hverja einustu gistinótt.

Í fréttabréfi ferðamálaráðs Dana ítrekar stjórnarformaðurinn að síðustu vikur hafi Visit Denmark unnið stíft að markaðsáætlun sem verði hleypt af stokkunum þegar stjórnvöld í Danmörku og annars staðar í heiminum opna samfélög og landamæri á ný.

Fyrsta skrefið í þeirri vegferð verði aukið frelsi heimamanna sjálfra til að ferðast innanlands. Í framhaldinu gera áætlanir Dana svo við að ferðamönnum frá nágrannalöndunum en ekki frá fjarlægari slóðum þar sem fullt ferðafrelsi muni ekki ríkja fyrst um sinn.

Í því samhengi má benda á að Þjóðverjar standa undir stórum hluta af leigutekjum sumarhúsaeigenda á Jótlandi og hlutfall norskra og sænskra gesta er sömuleiðis hátt í Kaupmannahöfn og nágrenni.

Danir reikna því fyrst um sinn helst með túristum sem komast til þeirra í lestum eða bílum. Ef það gengur eftir og Evrópubúar munu mest halda sig á meginlandinu í sumar yrði það vitanlega mjög slæmt fyrir íslenska ferðaþjónustu. En líkt og Túristi fór yfir í nýrri grein þá er full ástæða til að hafa áhyggur af stöðu Keflavíkurflugvallar í nýju landslagi.

 


Viltu styðja Túrista?

Nú þegar virkilega á reynir þá stendur Túristi vaktina frá morgni til kvölds. Ef þú ert einn þeirra lesenda sem finnst gagn í skrifum Túrista þá væri ómetanlegt ef þú myndir leggja útgáfunni lið. Smelltu hér fyrir nánari upplýsingar.