Virði Norwegian helmingaðist í morgunsárið

Jacob Schram forstjóri Norwegian og undirmenn hans vinna nú hörðum höndum að því að sannfæra kröfuhafa um að breyta gríðarlegum skuldum félagsins í hlutafé. Ef það tekst þá mun hlutur annarra hluthafa rýrna gríðarlega.

norwegian vetur
Mynd: Norwegian

Tíu mínútum eftir að opnað var fyrir viðskipti í kauphöllinni í Ósló í morgun þá hafði gengi bréfa í Norwegian fallið um nærri sextíu prósent. Gengi er rétt um þrjár norskar krónur á hlut núna en var 8,27 við opnun. Virði Norwegian er þar með rétt um 7 milljarðar á þessari stundu en til samanburðar er markaðsvirði Icelandair rúmir 18 milljarðar króna. Gengi beggja félaga hefur látið verulega á vegna útbreiðslu kórónaveirunnar.

Hrun Norwegian í norsku kauphöllinni í morgun kom ekki á óvart. Fármálagreinendur í Noregi höfðu nefnilega spáð því nú yfir páska að hluthafar myndu selja í stríðum straumum um leið og færi gæfist til. Ástæðan er sú að eftir lokun markaða fyrir páskafrí þá lögðu stjórnendur Norwegian fram áætlun sína um hvernig mætti bjarga flugfélaginu frá gjaldþroti. Veigamesta skrefið er að fá lánveitendur til að breyta kröfum sínum í hlutafé. Og þar sem skuldahali Norwegian er mjög langur þá myndi þetta þýða að núverandi hlutafé myndi nánast þurrkast upp að mati álitsgjafa norsku viðskiptapressunnar.

Meðal þeirra hluthafa sem hafa selt stóra hlut síðustu vikur er Bjørn Kjos, stofnandi og fyrrum forstjóri Norwegian. Eignarhaldsfyrirtæki hans og Bjørn Kise, fyrrum stjórnarformanns, er til að mynda ekki lengur meðal fimmtíu stærstu hluthafa líkt og Dagens Nærlingsliv greindi frá nú í morgun. Hlutur þeirra er þar með kominn undir 0,15 prósent en þeir félagar áttu 17 prósent í Norwegian fyrir ári síðan.

Norwegian hefur verið mjög umsvifamikið á Keflavíkurflugvelli og varð eftir fall WOW air það flugfélag sem flytur flesta héðan til Spánar. Félagið hefur einnig veitt Icelandair harða samkeppni í flugi milli Norður-Ameríku og Evrópu líkt og lesa má um í nýrri fréttaskýringu Túrista.


Viltu styðja Túrista?

Nú þegar virkilega á reynir þá stendur Túristi vaktina frá morgni til kvölds. Ef þú ert einn þeirra lesenda sem finnst gagn í skrifum Túrista þá væri ómetanlegt ef þú myndir leggja útgáfunni lið. Smelltu hér fyrir nánari upplýsingar.