40 prósent segja líklegt að þau gisti á hótelum eða gistiheimilum

Flestir landsmenn stefna á fleiri ferðalög innanlands í sumar í samanborið við það síðasta. Júlí verður aðal ferðamánuðurinn.

Frá Akeyri en flestir stefna á að heimsækja Norðurland í sumar samkvæmt könnun Hvíta hússins og EMC rannsókna. Mynd: Markaðsstofa Norðurlands

Það er ennþá óljóst hvenær flugsamgöngur til og frá Keflavíkurflugvelli verða á ný með eðlilegum hætti. Af þeim sökum þarf ekki að koma á óvart að yfirgnæfandi meirihluti, 88 prósent, svarenda í netkönnun auglýsingastofunnar Hvíta hússins og EMC rannsókna telja líklegt að þeir ferðist innanlands í sumar. Og sextíu og þrjú prósent gera ráð fyrir að ferðalögin innanlands verði fleiri en síðasta sumar. Könnunin fór fram á netinu dagana 30. apríl til 7. maí og fengust 758 svör.

Að meðaltali verða ferðadagarnir 12,4 talsins að mati þátttakenda og flestir segjast munu gista í tjaldi, fellihýsi eða húsbíl eða um sextíu af hverjum hundrað svarendum. Fjörutíu prósent gera ráð fyrir að dvelja á hótelum eða gistiheimilum. Sá hópur sem er líklegastur til að velja þann kost eru íbúar á höfuðborgarsvæðinu sem náð hafa 45 ára aldri.

Íbúar á landsbyggðinni og þeir sem eru með fleiri en þrjá á heimili eru aftur á móti líklegri til að ætla að gista í tjaldi, fellihýsi eða húsbíl.

Niðurstöður könnunarinnar benda til að umtalsverður ferðavilji sé til staðar hjá Íslendingum og að ýmis áhugaverð tækifæri séu í stöðunni fyrir ferðaþjónustuaðila víða um land eins og segir í frétt á heimasíðu Hvíta hússins.