99 prósent færri farþegar í Leifsstöð

Fyrstu fjóra mánuði ársins hefur farþegum fækkað um rúman helming.

Mynd: Isavia

Frá því um miðjan mars hafa flugsamgöngur milli landa nær algjörlega legið niðri til að hefta útbreiðslu Covid-19. Af þeim sökum fækkaði  farþegum á Keflavíkurflugvelli um 63 prósent í mars og í síðasta mánuði var samdrátturinn 99 prósent. Þá fóru aðeins 3.132 farþegar um Flugstöð Leifs Eiríkssonar en fjöldinn nam 474.519 farþegum í apríl í fyrra.

Það var fyrsti mánuðurinn eftir fall WOW air og því var verulegur samdráttur þann mánuðinn. Til samanburðar áttu 649.973 farþegar um flugstöðina í apríl 2018.

Fyrstu fjóra mánuði þessa árs hafa samtals 991.303 farþegar nýtt sér ferðir til og frá Keflavíkurflugvelli en fjöldinn nam rúmlega 2,1 milljón á sama tímabili í fyrra. Samdrátturinn nemur 53 prósentum.