Ætla að hefja flug milli Íslands og Ítalíu í júlí

Umsvif ungverska lággjaldaflugfélagsins Wizz Air hafa aukist hratt á Keflavíkurflugvelli. Nú ætlar félagið að hefja flug hingað frá Mílanó.

Frá Mílanó. Mynd: Matteo Raimondi

Þotur Wizz Air munu frá og með 3. júlí næstkomandi fljúga þrisvar í viku milli Íslands og Mílanó á Ítalíu. Þetta tilkynnti félagið fyrr í dag en Wizz Air er að hasla sér völl á Ítalíu með því að opna starfsstöð á Malpensa flugvelli skammt frá Mílanó.

Ísland verður einn af þeim tuttugu áfangastöðum sem Wizz Air ætlar að fljúga til frá þessari nýju heimahöfn. Brottfarir frá Keflavíkurflugvelli eru á dagskrá klukkan hálf fimm seinnipartinn mánudaga, miðvikudaga og föstudaga. Ekki bara í sumar heldur líka í vetur.

Í dag er Icelandair eina félagið sem býður upp á Ítalíuflug frá Keflavíkurflugvelli og þá til Mílanó en aðeins frá vori og fram á haust. Bæði Vueling og Norwegian hafa auk þess spreytt sig á ferðum hingað frá Róm. Mílanó var fastur liður í áætlun WOW og félagið fór tvö sumur til Rómar.

Ítalía hefur farið illa út úr kórónuveirufaraldrinum og sérstaklega norðurhluti landsins og nágrenni Mílanó. Landið er þó að opnast á ný og stjórnendur Wizz Air veðja greinilega á að fólk muni fljótt fara að ferðast til og frá landinu á ný.