Ætla ekki að hætta flugi yfir Norður-Atlantshafið

Icelandair losnar ekki við samkeppnina frá Norwegian þegar kemur að farþegum á leið milli Evrópu og Norður-Ameríku.

norwegian 3
Myndir: Norwegian

Forstjóri og fjármálastjóri Norwegian mættu sigurreifir til fundar við blaðamenn í höfuðstöðvum flugfélagsins vestur af Ósló nú í morgun. Samningaviðræður við kröfuhafa, flugvélaeigendur og hluthafa skiluðu nefnilega tilætluðum árangri. Tveir fyrrnefndu hóparnir féllust á að breyta skuldum upp á 11 milljarða norskra króna (155 milljarða kr.) í hlutafé og þar með halda núverandi hluthafar aðeins eftir 5,2 prósentum í félaginu. Þeir fá aftur á móti að kaupa alla vega tíund af því nýja hlutafé sem boðið verður í komandi útboði en stefnt er að því að birta sölugengið síðar í dag.

Norwegian er því ekki eins skuldsett í dag og það var í gær en félagið hefur átt við verulegan vanda að etja í langan tíma enda hafa menn telft djart. Félagið var til að mynda fyrsta evrópska lággjaldaflugfélagið sem hóf áætlunarflug til Norður-Ameríku og setti þar með mikla pressu á Icelandair eins og áður hefur verið rakið.

Og þó þessi útgerð hafi reynst félaginu erfið þá er ekki ætlunin að hætta henni. Það kom skýrt fram í máli Jacob Schram, forstjóra félagsins, á blaðamannafundinum í dag. Schram sagði fluginu yfir Norður-Atlantshafið yrði haldið áfram og það væri ennþá stefna félagsins að vera í fararbroddi á þeim markaði.

Engu að síður myndi framboðið óhjákvæmilega dragast saman um fjörutíu prósent þar sem fluginu yrði aðeins haldið áfram frá þeim flugvöllum þar sem leiðakerfið væri arðbærast. Forstjórinn fór þó ekki nánar út í hvaða flugvellir eða lönd það væru en áður hafði hann fullyrt að Norwegian myndi fyrst og fremst gera út á norræna markaðinn hér eftir og taldi upp öll Norðurlöndin nema Ísland.

Norwegian hefur verið það flugfélag sem flutt hefur flesta farþega milli Spánar og Íslands en stjórnendur Norwegian vilja ekkert segja til um hvort og þá hvenær félagið tekur upp þráðinn á Spáni og í Bretlandi. Í báðu þessum löndum er flugfélagið með flugrekstur og það sama á við París og Róm.


Viltu styðja Túrista?

Nú þegar virkilega á reynir þá stendur Túristi vaktina frá morgni til kvölds. Ef þú ert einn þeirra lesenda sem finnst gagn í skrifum Túrista þá væri ómetanlegt ef þú myndir leggja útgáfunni lið. Smelltu hér fyrir nánari upplýsingar.