Ætla ekki tjá sig um mögu­leikann á að breyta skuldum í hlutafé

Icelandair fékk lánaða nærri níu milljarða króna hjá bandarískum banka í lok síðasta árs. Í komandi hlutafjárútboði gæti lánveitendum flugfélagsins staðið til boða að fá hlutafé gegn lækkun skulda.

Mynd: Sigurjón Ragnar / sr-photos.com

Þann fimmta desember í fyrra tilkynnti Icelandair samsteypan um fimm ára lána­samning við banda­ríska bankann CIT. Láns­upp­hæðin nam 35 millj­ónum dollara sem jafn­gilti þá 4,3 millj­örðum króna en er 5,1 millj­arður á gengi dagsins. Nærri fjórum vikum síðar, nánar tiltekið á síðasta gaml­ársdag, tók Icelandair svoa annað lán hjá banda­ríska bank­anum. Þá var láns­upp­hæðin 30 millj­ónir dollara sem samsvarar um 4,4 millj­örðum króna í dag. Báðar þessar lántökur komu til vegna uppgreiðslu skulda­bréfa­flokka þar sem Icelandair uppfyllti ekki lengur þau skil­yrði sem sett voru í þeirri skulda­bréfa­út­gáfu.

Lántaka Icelandair Group í lok síðasta árs hjá CIT nam í heildina 65 millj­ónum dollara eða um 8,7 millj­örðum króna miðað við núver­andi gengi. Og í komandi hluta­fjárút­boði flug­fé­lagsins, þar sem ætlunin er að safna um þrjátíu millj­örðum króna í nýtt hlutafé, þá stendur til að bjóða fjár­festum að greiða fyrir nýtt hlutafé með skulda­jöfnun líkt og fram kom í kaup­hall­ar­til­kynn­ingu Icelandair á föstudag. Núver­andi hlut­hafar samsteypp­unar greiða atkvæði um þessa tillögu á föstu­daginn.

John Moran tals­maður CIT, vill þó ekki tjá sig um hvort bankinn skoði þátt­töku í hluta­bréfa­út­boðinu. Þetta kemur fram í stuttu svari hans við fyrir­spurn Túrista til bankans þar sem spurt var hvort til greina komi að breyta skuldum Icelandair í hlutafé að hluta til eða öllu leyti.

Nærtækt dæmi um þess háttar er Norwegian flug­fé­lagið en nýverið sættust kröfu­hafar félagsins á að breyta hluta af lánum sínum í hlutafé. Þess má geta að einn af yfir­mönnum lána­sviðs CIT bankans, Jennifer Villa Tennity, hefur verið á innherjalista Icelandair hjá Fjár­mála­eft­ir­litinu síðustu tvo mánuði.

CIT er ekki eini bankinn sem samþykkti millj­arða lán til Icelandair Group í fyrra því það gerði Lands­bankinn einnig. Í byrjun mars í fyrra fékk Icelandair 80 millj­ónir dollara, um 11,7 millj­arða króna á gengi dagsins, frá bank­anum gegn veði í tíu Boeing 757 þotum. En líkt og Túristi hefur áður fjallað um þá er útlit fyrir að þess háttar þotum fækki í háloft­unum þegar flug­sam­göngur hefjast að einhverju ráði á ný. Ástæðan er sú að stór banda­rísk flug­félög eru að leggja þessum gömlu þotum nú þegar útlit er fyrir að umsvifin dragist saman.

Þannig ætlar American Airlines ekki að halda áfram að nota Boeing 757 þotur í Íslands­flug sitt en meðal­aldur þessara þota í flota American Airlines er rúm 20 ár. Meðal­aldur Boeing 757 þota Icelandair er fjórum árum hærri. Það eru því sterkar vísbend­ingar um að veð Lands­bankans í flug­vélum Icelandair hafi rýrnað sérstak­lega mikið síðustu mánuði.