Ætla ekki tjá sig um möguleikann á að breyta skuldum í hlutafé

Icelandair fékk lánaða nærri níu milljarða króna hjá bandarískum banka í lok síðasta árs. Í komandi hlutafjárútboði gæti lánveitendum flugfélagsins staðið til boða að fá hlutafé gegn lækkun skulda.

Mynd: Sigurjón Ragnar / sr-photos.com

Þann fimmta desember í fyrra tilkynnti Icelandair samsteypan um fimm ára lánasamning við bandaríska bankann CIT. Lánsupphæðin nam 35 milljónum dollara sem jafngilti þá 4,3 milljörðum króna en er 5,1 milljarður á gengi dagsins. Nærri fjórum vikum síðar, nánar tiltekið á síðasta gamlársdag, tók Icelandair svoa annað lán hjá bandaríska bankanum. Þá var lánsupphæðin 30 milljónir dollara sem samsvarar um 4,4 milljörðum króna í dag. Báðar þessar lántökur komu til vegna uppgreiðslu skuldabréfaflokka þar sem Icelandair uppfyllti ekki lengur þau skilyrði sem sett voru í þeirri skuldabréfaútgáfu.

Lántaka Icelandair Group í lok síðasta árs hjá CIT nam í heildina 65 milljónum dollara eða um 8,7 milljörðum króna miðað við núverandi gengi. Og í komandi hlutafjárútboði flugfélagsins, þar sem ætlunin er að safna um þrjátíu milljörðum króna í nýtt hlutafé, þá stendur til að bjóða fjárfestum að greiða fyrir nýtt hlutafé með skuldajöfnun líkt og fram kom í kauphallartilkynningu Icelandair á föstudag. Núverandi hluthafar samsteyppunar greiða atkvæði um þessa tillögu á föstudaginn.

John Moran talsmaður CIT, vill þó ekki tjá sig um hvort bankinn skoði þátttöku í hlutabréfaútboðinu. Þetta kemur fram í stuttu svari hans við fyrirspurn Túrista til bankans þar sem spurt var hvort til greina komi að breyta skuldum Icelandair í hlutafé að hluta til eða öllu leyti.

Nærtækt dæmi um þess háttar er Norwegian flugfélagið en nýverið sættust kröfuhafar félagsins á að breyta hluta af lánum sínum í hlutafé. Þess má geta að einn af yfirmönnum lánasviðs CIT bankans, Jennifer Villa Tennity, hefur verið á innherjalista Icelandair hjá Fjármálaeftirlitinu síðustu tvo mánuði.

CIT er ekki eini bankinn sem samþykkti milljarða lán til Icelandair Group í fyrra því það gerði Landsbankinn einnig. Í byrjun mars í fyrra fékk Icelandair 80 milljónir dollara, um 11,7 milljarða króna á gengi dagsins, frá bankanum gegn veði í tíu Boeing 757 þotum. En líkt og Túristi hefur áður fjallað um þá er útlit fyrir að þess háttar þotum fækki í háloftunum þegar flugsamgöngur hefjast að einhverju ráði á ný. Ástæðan er sú að stór bandarísk flugfélög eru að leggja þessum gömlu þotum nú þegar útlit er fyrir að umsvifin dragist saman.

Þannig ætlar American Airlines ekki að halda áfram að nota Boeing 757 þotur í Íslandsflug sitt en meðalaldur þessara þota í flota American Airlines er rúm 20 ár. Meðalaldur Boeing 757 þota Icelandair er fjórum árum hærri. Það eru því sterkar vísbendingar um að veð Landsbankans í flugvélum Icelandair hafi rýrnað sérstaklega mikið síðustu mánuði.