Bíða enn með að fella niður flug milli Íslands og Spánar

Þrátt fyrir yfirlýsingar stjórnenda Norwegian er ennþá hægt að bóka ferðir með félaginu héðan til Alicante og Barcelona í sumar.

Frá La Barceloneta í Barcelona en Norwegian er enn með farmiða í sölu frá Íslandi til höfuðstaðs Katalóníu. Mynd: Lucrezia Carnelos

Eftir fall WOW air varð Norwegian það flugfélag sem flutti flesta milli Íslands og Spánar. Munaði þar miklu um að norska lággjaldaflugfélagið hóf að fljúga héðan næstum daglega til Kanaríeyja. Þær ferðir voru hrein viðbót við áætlunarflug félagsins til Íslands frá Alicante, Barcelona og Madríd.

Rekstur Norwegian hefur aftur á móti verið í járnum lengi. Stjórnendur þess gera því núna ráð fyrir því að flugrekstur félagsins í sumar og næsta vetur einskorðist við ferðir til og frá Noregi auk leiguflugs fyrir ferðaskrifstofur, þar á meðal skandinavískar ferðaskrifstofur Arion banka.

Þrátt fyrir að þessi stefnumörkun þá er ennþá hægt að bóka flug með Norwegian næstu mánuði frá Keflavíkurflugvelli til Alicante og Barcelona. Og Túristi hefur fengið fjölda fyrirspurna frá lesendum sem eiga bókað far með félaginu en hafa ekki ennþá fengið upplýsingar um hvort ferðirnar falla niður og hvenær sé þá von á endurgreiðslu.

Í svari frá Norwegian, við fyrirspurn Túrista, segir að ástæðan fyrir því að ennþá er hægt að bóka sæti í Íslandsflug félagsins er sú að ekki liggi endanlega fyrir hvernig flugáætlunin verði. Breytingar verði á áætluninni verði gerðar í takt við ferðaviðvaranir stjórnvalda og eins ráði eftirspurn hvernig málin þróast. „Um leið og flugi er aflýst þá látum við viðskiptavini okkar vita með sms skilaboðum eða tölvupósti,“ segir í svari Norwegian.

Í ljósi yfirlýsinga stjórnenda Norwegian síðustu daga verður að teljast mjög líklegt að ekkert verði af Íslandsflugi Norwegian frá Spáni fyrr en í fyrsta lagi vorið 2021. Forstjóri félagsins hefur þó sagt að ef margir vilja fljúga eftir að flugsamgöngu komast í gang á ný þá geti félagið aukið flugframboð í takt við það.

Auk Norwegian þá eru ferðaskrifstofurnar Heimsferðir, Úrval-Útsýn og VITA með flug á boðstólum til Spánar í sumar. Og eins gerir sumaráætlun Icelandair ráð fyrir ferðum héðan til Barcelona og Madríd. Frá fyrrnefndu borginni munu þotur Vueling þá líka fljúga til Íslands og Iberia Express kemur hingað frá Madríd.


Viltu styðja Túrista?

Nú þegar virkilega á reynir þá stendur Túristi vaktina frá morgni til kvölds. Ef þú ert einn þeirra lesenda sem finnst gagn í skrifum Túrista þá væri ómetanlegt ef þú myndir leggja útgáfunni lið. Smelltu hér fyrir nánari upplýsingar.