Bíða fram á haustið með flug til Íslands

Þotur Finnair munu ekki taka stefnuna á Keflavíkurflugvöll nú í sumar. Félagið er umsvifamikið í Asíuflugi.

finnair a
Mynd: Finnair

Þegar finnska flugfélagið Finnair hóf að fljúga til Íslands vorið 2017 þá stóð aðeins til að halda ferðunum úti yfir sumarmánuðina. Eftirspurnin reyndist hins vegar það mikil að félagið hefur flogið hingað allt árið um kring.

Finnair er mjög stórtækt í flugi til Asíu og flytur því hingað marga ferðamenn frá áfangastöðum sínum í austurlöndum fjær.

Nú er Finnair að fjölga ferðum sínum á ný eftir að hafa legið nær í dvala síðustu vikur vegna heimafaraldursins sem útbreiðsla Covid-19 hefur valdið. Þotur félagsins hafa því tekið stefnuna á Asíu á ný en aftur á móti verður bið eftir Finnair til Íslands.

„Við munum byrja að fljúga til Keflavíkurflugvallar á ný í september og þá fimm sinnum í viku. Ferðunum fjölgar um eina í október og frá nóvember og fram í mars á næsta ári verða ferðirnar sjö í viku,“ segir Päivyt Tallqvist, talsmaður Finnair, við Túrista.

Auk Finnair þá hefur Icelandair um langt árabil flogið reglulega milli Keflavíkurflugvallar og Vantaa í útjaðri Helsinki.