Biðja hluthafa um 2,3 milljarða kr. fyrir sameininguna við Kynnisferðir

Fjárfestingasjóðurinn Eldey hefur síðustu ára keypt hluti í íslenskum ferðaþjónustufyrirtækjum sem sérhæfa sig í ýmis konar afþreyingu. Nú er unnið að samruna sjóðsins og Kynnisferða.

Skjámynd af heimasíðu Eldeyjar

Hluthafar í fjárfestingasjóðnum Eldey koma saman síðar í dag og greiða atkvæði um hlutafjáraukningu upp á 2,3 milljarða króna. Stærstu hluthafar sjóðsins, sem er í vörslu Íslandssjóða og VÍB, eru lífeyrissjóðir sem fara samtals með um sjötíu prósent hlutafjár í Eldey. Auk þess á Íslandsbanki um tíund og aðrir hluthafar fara með fimmtung.

Hlutafjáraukningin er forsenda fyrir samruna sjóðsins og Kynnisferða, stærsta hópbifreiðafyrirtækis landsins. Það rekur til að mynda Flugrútuna og bílaleiguna Enterprise. Eldey á aftur móti misunandi stóra hluti í Norðursiglingu, Dive.is, Arcanum fjallaleiðsögumönnum, Logakór og Íslenskum heilsulindum. Sjóðurinn átti líka tvo þriðju hlutafjár í Saga travel sem varð gjaldþrota í lok apríl.

Samkomulag um kaup Kynnisferða á öllu eignasafni Eldeyjar var undirritað í byrjun þessa mánaðar. Gert er ráð fyrir að hluthafar Eldeyjar og meðeigendur sjóðsins í hluta af fyrirtækjunum eignist samtals 51,4 prósent hlutafjár í sameiginlegu félagi samkvæmt heimildum Túrista. Þó er gerður fyrirvari um niðurstöður áreiðanleikakönnunar og eignahlutföllin gætu því breyst.

Sem fyrr segir þurfa eigendur Eldeyjar fyrst að leggja sjóðnum til 2,3 milljarða króna. Af þeirri upphæð fara 300 milljónir í að greiða upp lán, þóknanir og rekstrarkostnað svo hægt sé að loka Eldey. Til viðbótar þarf 250 milljónir til greiðslu á kostnaði vegna samrunans samkvæmt heimildum Túrista.

Stærsti hluti hlutafjáraukningarinnar eða 750 milljónir króna nýtist í að halda rekstri sameiginlegs fyrirtækis gangandi næstu sex mánuði þar sem búast megi við að litlum tekjum á því tímabili.

Eftir stendur þá milljarður króna og sú upphæð skiptist jafnt milli tveggja félaga sem Eldey á hlut í. Þannig krefst uppbygging á vegum Logakórs við Sólheimajökul 500 milljóna króna. Sömu upphæð þarf í komandi hlutafjáraukningu á vegum Íslenskra heilsulinda vegna stækkunar Fontana á Laugarvatni, uppbyggingar við Kerlingafjöll og fleiri verkefni.

Langstærsti hluthafinn í Eldey er lífeyrissjóðurinn Birta með um 24 prósent. Hlutur sjóðsins í hlutafjáraukningunni í Eldey er því um 550 milljónir króna. Til samanburðar á Birta 7,07 prósent hlutafjár í Icelandair Group. Sjóðurinn þarf þá að leggja því félagi til allt að 2,1 milljarð króna ef ætlunin er að halda sama hlut í flugfélaginu eftir komandi hlutafjárútboð.

Í athugasemd frá Eldey við þessari frétt Túrista segir að hlutafjáraukningin verði lægri en gert var ráð fyrir í þeim gögnum sem hluthöfum var send fyrr í þessum mánuði. Frétt Túrista byggði á þessum sömu gögnum en sem fyrr segir þá hafa forsendur nú breyst, m.a. í kjölfar samtala við hluthafa eins og það er orðað í athugasemd.