Buffet neikvæður á horfur flugfélaga

Fjárfestingafyrirtæki Warren Buffett átti stóran hlut í fjórum stærstu flugfélögum Bandaríkjanna. Bróðurpartur hlutabréfanna hefur nú verið seldur því hinn heimsþekkti fjárfestir telur flugrekstur hafa breyst til lengri tíma. Hann vonast þó til að hafa rangt fyrir sér hvað það varðar.

Þota United flugfélagsins við Leifsstöð. Mynd: United Airlines

Í nýliðnum mánuði seldi fjárfestingafélagið Berkshire Hathaway, sem auðkýfingurinn Warren Buffet fer fyrir, hlutabréf fyrir um sex og hálfan milljarð dollara. Stærsti hluti þessara viðskipta tengdist flugfélögunum American Airlines, United, Delta og Southwest samkvæmt frétt Bloomberg.

Gengi hlutabréfa í flugfélögum hefur hrunið allt frá því að ráðamenn gripu til þess að takmarka ferðalög fólks til að hefta útbreiðslu Covid-19 kórónaveirunnar. Á opnum netfundi með fjárfestum í gær fullyrti Buffet að heimurinn hefði tekið stakkaskiptum þegar kæmi að flugfélögum og hann óskaði þeim velfarnaðar.

Hann bætti við að vonandi hefði hann rangt fyrir sér en eins og hann læsi í stöðuna þá væri hún gjörbreytt. Hættan væri sú að flugfélög stæðu uppi með of háan fastan kostnað ef eftirspurn eftir ferðalögum myndi dragast saman í kjölfar þess að ferðabönnum verði aflétt.

Buffet var þekktur fyrir andstöðu sína við að fjárfesta í flugrekstri en árið 2016 breytti hann um kúrs og hóf að kaupa hlutabréf í flugfélögum og nam virði þeirra um 10 milljörðum dollara í lok síðasta árs. Verðmæti þessara bréfa hefur rýrnað gríðarlega það sem af er ári.