Eiga í viðræðum við Boeing vegna MAX þotanna

Boeing MAX þotur Icelandair á Keflavíkurflugvelli áður en þær voru ferjaðar til vetrardvalar á Spáni. Mynd: Gunnlaugur Rögnvaldsson

Nú eru fjórtán mánuðir liðnir frá því að Boeing MAX þotur voru kyrrsettar á heimsvísu eftir tvö mannskæð flugslys. Ennþá liggur ekki fyrir hvenær flugvélarnar fá að fljúga á ný en Icelandair keypti samtals sextán MAX þotur.

Sex þeirra voru komnar í flota félagsins þegar kyrrsetningin var sett á í mars í fyrra. Þrjár til viðbótar voru tilbúnar en höfðu ekki verið afhentar. Framleiðsla á sjö þotum var ekki hafin en ljóst er að Boeing mun afhenda þær löngu seinna en upphaflega var gert ráð fyrir.

Og nú eiga stjórnendur Icelandair í viðræðum við Boeing um þær þotur sem eftir á afhenda og jafnframt um frekari bætur vegna seinkunarinnar sem nú þegar hefur orðið. Þetta kemur fram í kynningu Boga Nils Bogasonar, forstjóra Icelandair Group, sem hann fer nú yfir á hluthafafundi félagsins.

Þar er ætlunin að fá samþykki hluthafa fyrir því að auka hlutafé í félaginu um allt að 30 milljarða króna.