Eigendur ferðaþjónustufyrirtækja telja sig komast í gegnum Covid-19 ástandið

Bróðurpartur ferðaþjónustufyrirtækja á Norðurlandi ætlar að hafa opið í sumar. Meirihluti þeirra telur íslenska ferðamenn vera mikilvægan kúnnahóp.

Frá Hófsósi. Mynd: Markaðsstofa Norðurlands

Ferðaþjónustufyrirtæki á Norðurlandi telja að þau muni komast í gegnum það ástand sem Covid-19 veirufaraldurinn hefur skapað og ætla að vera með opið hjá sér í sumar. Þetta kemur fram í niðurstöðum könnunar sem Markaðsstofa Norðurlands gerði í byrjun maí. Meirihluti þeirra er að nýta úrræði ríkisstjórnarinnar, þar af eru flest þeirra að nýta hlutabótaleiðina samvkæmt því sem segir í tilkynningu.

Þar segir einnig að alls svöruðu tæplega 39 prósent aðspurðra að mjög líklega myndi fyrirtækið þeirra lifa Covid-19 ástandið af og tæp 38 prósent segja það frekar líklegt. Þá var spurt um hvort fyrirtæki yrðu með opið hjá sér í sumar og 91 prósent svöruðu játandi. Þar af voru 60 prósent sem ætla að hafa opið allt árið.

Þegar spurt hvar um hvort fólk væri sammála þeirri fullyrðingu að íslenskir ferðamenn væru mikilvægir fyrir þeirra fyrirtæki, kom í ljós að meirihlutinn telur svo vera. Alls sögðu tæp 36% að þau væru mjög sammála þessari fullyrðingu og tæp 23% að þau væru frekar sammála.