Eigendur WOW ítreka áhuga sinn á Alitalia

Endurreisn hins íslenska lággjaldaflugfélags er ekki eina verkefnið sem forsvarsfólk USAerospace Partners hefur hug á að ráðast í.

alitalia nytt
Mynd: Alitalia

Michelle Roosevelt Edwards og viðskipta­fé­lagar hennar hjá hinu banda­ríska USAerospace Partners vinna nú að því að koma WOW air í loftið á ný. Þannig var heima­síða félagsins nýverið uppfærð en ennþá er þó margt á huldu varð­andi áform félagsins.

Samhliða endur­reisn WOW air vilja þau hjá USAerospace Partners leggja ítölskum stjórn­völdum lið við að snúa rekstri Alitalia við. Þennan áhuga sinn á ítalska flug­fé­laginu létu þau í ljós nú í lok vetrar en þá varð ekkert af viðræðum.

Áhugi eigenda WOW á ítalska félaginu er þó ennþá til staðar samkvæmt frétt Reuters. Þar segir að USAerospace Partners hafi fyrir helgi ítrekað vilja sinn á að koma Alitalia í loftið á ný í samstarfi við ítölsk stjórn­völd og aðra fjár­festa.

Stjórn­völd í Róm vinna þó áfram að því að bjarga Alitalia frá gjald­þroti en félagið hefur lengi verið í miklu basli.