Eitt tilboð barst í milli­landa­flug héðan í sumar

Samgöngurráðuneytið hefur gert samning við Icelandair sem tryggja á flugsamgöngur til og frá landinu í sumar.

Stokkhólmur er ein þeirra þriggja borga sem flogið verður til samkvæmt samkomulagi Icelandir og Samgönguráðuneytisins. Mynd: Henrik Tygg / Ferðamálaráð Stokkhólms

Samgöngu- og sveit­ar­stjórn­ar­ráðu­neytið hefur gert nýjan samning við Icelandair sem tryggir lágmarks flug til Evrópu og Banda­ríkj­anna til og með 27. júní. Í frétt á vef stjórn­ar­ráðsins kemur fram að flogin verða tvö flug á viku á þrjá áfanga­staði út samn­ings­tímann og hægt er að fram­lengja samn­inginn fram í sept­ember ef þörf krefur. Sem fyrr takmarkast ferð­irnar við Boston, London og Stokk­hólm en flug til New York og Kaup­manna­hafnar verður skoðað á tíma­bilinu. „Mark­miðið er sem fyrr að tryggja flug­sam­göngur til og frá landinu vegna þess ástands sem skapast hefur vegna Covid-19 farald­ursins,” segir í frétt­inni.

Þar kemur fram að í aðdrag­anda samn­inga auglýstu Ríkis­kaup eftir tilboðum á evrópska útboðsvefnum TED (Tenders Electronic Daily). Icelandair var eina flug­fé­lagið sem gerði tilboð. Ríkið mun greiða að hámarki 300 millj­ónir króna vegna upphafs­tíma­bils samn­ingsins frá 17. maí til 27. júní. Greiðslur fyrir flug á öllu tíma­bilinu geta að hámarki orðið hálfur millj­arður króna. Tekjur Icelandair af flug­unum munu ennfremur lækka greiðslur.

„Ráðu­neytið getur fram­lengt samn­ingnum tvívegis, fyrst til 8. ágúst og aftur til 19. sept­ember nk. Um er að ræða fram­hald á samn­ingum sem gerðir hafa verið við Icelandair um lágmarks milli­landa­flug á tíma­bilinu 27. mars til og með 16. maí. Það voru Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveit­ar­stjórn­ar­ráð­herra, og Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair, sem undir­rituðu samn­inginn með rafrænum hætti,” segir á vef stjórn­ar­ráðsins.

Flogin verða tvö flug á viku á þrjá áfanga­staði út samn­ings­tímann. Drög að flugáætlun fyrir tvær næstu vikur liggja fyrir. Þessar tvær vikur mun Icelandair fljúga samtals 12 ferðir (24 flug­leggi) til Boston, London og Stokk­hólms. Flugáætlun næstu tvær vikur er eftir­far­andi með þeim fyrir­vara að dagsetn­ingar geta breyst og flug fallið niður:

Boston (Logan Internati­onal – BOS) 21., 23., 28. og 30. maí.
London (Heathrow – LHR) 17., 20., 24. og 27. maí.
Stokk­hólmur (Arlanda – ARN) 20., 23., 27. og 30. maí.

Verði unnt að fljúga til New York (JFK) eða Kaup­manna­hafnar á samn­ings­tím­anum getur ríkið ákveðið í samráði við Icelandair að flogið verði til New York í stað Boston og til Kaup­manna­hafnar í stað Stokk­hólms.