Ekki ennþá nægur stuðningur við neyðaráætlun Norwegian

Stjórnendur Norwegian hafi rofið þögnina og upplýst að ekki hafi nægjanlega margir skuldabréfaeigendur samþykkt að breyta kröfum í hlutafé.

Frá gjaldþroti WOW hefur Norwegian verið það flugfélag sem flytur flesta farþega milli Íslands og Spánar. Mynd: Norwegian

Þrír hópar skuldabréfaeigenda af fjórum féllust á að tilboð um að breyta stórum hluta af kröfum sínum á Norwegian í hlutafé. Í fjórða hópnum féllu 62 prósent atkvæða með áætluninni. Það var ekki nægjanlegt því að lágmarki þurfa tveir þriðju að samþykkja tilboðið. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Norwegian en í gærkvöld rann út frestur skuldabréfaeigenda til að greiða atkvæði með eða á móti þeirri neyðaráætlun sem forsvarsfólk flugfélagsins hefur kynnt til að forða félaginu frá gjaldþroti.

Samkvæmt fréttum í norsku viðskiptapressunni munu samningaviðræður halda áfram yfir helgina. Á sunnudag eru svo komið af flugvélaleigum að segja sína skoðun á því að breyta samningum sínum við Norwegian og ógreiddum reikningum í hlutafé. Núverandi hluthafar Norwegian ganga svo til atkvæða á mánudag en hlutur þeirra þynnist nær alveg út.

Ef samþykki allra þriggja hópa fæst þá er ætlunin að Norwegian dragi verulega saman umsvifin fram til mars á næsta ári. Gjaldþrot blasir aftur á móti við félaginu ef samþykki við neyðaráætluninni fæst ekki.

Eins og Túrisi hefur áður fjallað um þá hafa gríðarleg umsvif Norwegian í flugi yfir Norður-Atlantshafið riðlað stöðu Icelandair verulega á þeim markaði.