Erfiðar kjaraviðræður í miðjum lífróðri

Forstjóri Icelandair segir að lítill tími sé til stefnu til að ná samkomulagi við flugmenn og flugfreyjur félagsins. Á hluthafafundi sem haldinn verður 22. maí verði að liggja fyrir langtímasamkomulag við flugstéttir. Af samtölum Túrista við flugmenn hjá félaginu þá eru vonbrigði með skeyti forstjórans í þeirra röðum.

Mynd: Icelandair

Það var í gærkvöld sem Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair Group, sendi starfsfólki sínu bréf þar sem hann ítrekaði að semja verði við flugstéttir til nokkurra ára til að tryggja næga þátttöku í komandi hlutafjárútboði. Einingarkostnaður vegna launa hjá Icelandair megi ekki vera hærri en hjá alþjóðlegum flugfélögum sem Icelandair beri sig saman við.

„Hvort sem okkur líkar betur eða verr gera fjárfestar kröfur um nýja langtímasamninga við flugstéttir sem gera félagið samkeppnishæft á næstu árum,“ skrifar Bogi. Hann segir að gera verði breytingar á samningum sem auki samkeppnishæfni en tryggi um leið góð starfskjör og eftirsótt starfsumhverfi. Því þurfi að gera talsverðar breytingar á samningum. Bogi segir í bréfinu að viðræður gangi misjafnlega vel við stéttarfélögin og að viðræður við Félag íslenskra atvinnuflugmanna og Flugfreyjufélag Íslands mættu vera á betri stað.

Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, gagnrýnir Boga Nils harðlega í pistli á Facebook og fullyrðir að af samtölum sínum við stjórn­ar­menn í líf­eyr­is­sjóð­um þá hafi aldrei komið krafa um það að end­ur­semja þurfi við starfs­fólk félagsins líkt og fram kemur í frétt Kjarnans.

Íslenskir lífeyrissjóðir eiga í dag um helming af hlutafé Icelandair en stærsti hluthafinn er bandaríski vogunarsjóðurinn PAR Capital Management.

Guðlaug Líney Jóhannsdóttir, formaður Flugfreyjufélags Íslands, segir við RÚV að flugfreyjum sé brugðið við orðsendingu forstjóra Icelandair þar sem kemur fram að sjálft starfsfólkið sé helsta hindrunin í veginum þegar kemur að því að bjarga félaginu. Formaðurinn segir að flugfreyjur ætli ekki að taka á sig varanlega kjaraskerðingu.

Samkvæmt samtölum Túrista við flugmenn Icelandair þá telja þeir sig hafa nú þegar gefið töluvert eftir af sínum kjörum og því hafi bréf Boga Nils í gærkvöld valdið miklum vonbrigðum í þeirra röðum.

Þannig hafi flugmenn ítrekað lýst vilja sínum til að fjölga vinnutímum, gefa eftir frídaga á sumrin og auka vinnuskyldu um helgar. Með þessum aðgerðum og fleirum væri hægt að bæta nýtingu flugmanna um allt að fjórðung. Miklar árstíðasveiflur í sætaframboði hjá Icelandair takmarka aftur á móti nokkuð möguleikana að sögn viðmælenda Túrista. Þannig sé árstíðasveiflan minni hjá flugfélögum sem oft er horft til.