Færri fá en vilja ný hlutabréf í Norwegian

Nú þegar er ljóst að fjárfestar eru tilbúnir til að kaupa meira en allt það hlutafé sem bjóða á út í Norwegian í tengslum við endurskipulagninu félagsins.

Mynd: Norwegian

Stjórnendur Norwegian kynntu nýverið nýja útgáfu af flugfélaginu. Umsvifin verða dregin verulega saman og munu fyrst og fremst einskorðast við Skandinavíu og Finnland. Ennþá hafa þó ekki verið gefin skýr svör hvað verður um starfsemi félagsins í öðrum löndum en Norwegian hefur til að mynda verið stórtækt í Íslandsflugi frá Spáni. Rekstur hins gamla Norwegian gekk illa og safnaði félagið löngum skuldahala sem skuldabréfaeigendur og flugvélaleigur hafa sæst á að stytta með því að eignast samanlagt um 95 prósent í félaginu. Eldri hluthafar sitja uppi með aðeins 5,2 prósent í félaginu.

Minni skuldir og hærra eiginfjárhlutfall voru líka skilyrði norskra ráðamanna fyrir því að veita Norwegian lánaábyrð upp á tæpa fjörutíu milljarða króna. Til viðbótar á svo að gefa út nýtt hlutafé fyrir 400 milljónir norskra króna en það jafngildir um 5,7 milljörðum íslenskra króna líkt og tilkynnt var í byrjun vikunnar. Nú þegar liggur fyrir að fjárfestar hafa skráð sig fyrir allri þessari nýju útgáfu samkvæmt því sem kemur fram í kauphallartilkynningu Norwegian nú í morgunsárið.

Nýja hlutaféð verður selt á genginu einum en gengi hlutabréf í Norwegian er núna rétt um 4,2 og hefur það lækkað um 89 prósent í ár.

Icelandair hyggst fara í hlutafjárútboð í byrjun næsta mánaðar og vonast er til að þar safnist um 29 milljarðar í nýtt hlutafé.