Farþegar með grímur og áhafnir í hlífðarfatnaði

Stemningin í farþegarýmum flugvéla er töluvert ólík því sem þekktist áður en heimsfaraldurinn braust út.

Áhöfn India Express tilbúin í næstu ferð. Mynd af Facebook síðu Air India Express

Það eru ekki margir á ferðinni þessa dagana en engu að síður halda flugfélög ennþá úti áætlunarferðum og þá sérstaklega innanlands. Og það er ekki laust við að ákveðin ringulreið ríki hjá farþegum og flugfélögum um hvernig eigi að snúa sér nú þegar krafa er um að fólk haldi ákveðinni fjarlægð frá hvoru öðru og noti jafnvel grímur.

Í Bandaríkjunum sáu stjórnendur Frontier flugfélagsins þannig tækifæri í að selja grímur um borð. Fljótt var skrúfað fyrir þessa nýju tekjulind í kjölfar harðrar gagnrýni frá farþegum.

Sum félög hafa svo haldið miðjusætinu auðu og það ætluðu forsvarsmenn United flugfélagsins líka að gera. Þau skilaboð hafa þó ekki borist til allra starfsmanna félagsins og þotur félagsins því farið í loftið þéttsetnar. Það gerðist til dæmis þegar félagið flutti heilbrigðisstarfsmenn frá New York borg en þar hafði fólki unnið í sjálfboðavinnu á sjúkrastofnunum.

Þessi mynd komst á flug á Twitter og í kjölfarið lofaði United að taka sig á. Hér eftir verða farþegar United látnir vita ef þeir eiga bókað far í ferð sem væri nærri uppseld. Farþegunum verður þá gert kleift að velja annan brottfarartíma í staðinn og eins verður passað upp á að halda miðjusætum lausum eins og kostur er.

Twitter færsla ráðherra í indversku ríkisstjórninni hefur einnig vaktið athygli. Þar sitja farþegarnir líka þétt og allir með maska og plastgrímur. Flugfreyjan á myndinni er svo í hlýfðarfatnaði frá toppi til táar.