Ferðafólki gæti fækkað um 60 til 80 prósent í ár

Á fyrsta fjórðungi ársins var fjórðungs samdráttur í ferðum fólks milli landa. Niðursveiflan það sem eftir lifir 2020 gæti orðið ennþá meiri að mati sérfræðinga ferðamálanefndar Sameinuðu þjóðanna.

ferdamenn cataratas do iguacu brazil henrique felix
Ferðafólk í Brasilíu. Mynd: Henrique Felix

Utanlandsreisur hafa aukist jafnt og þétt síðustu ár en til að hefta útbreiðslu kórónaveirunnar hafa landamæri lokast og fólki skipað að halda sig heima. Fyrstu vikur ársins voru þó með hefðbundnum hætti en í lok janúar var kínversku borginni Wuhan lokað og í byrjun febrúar stöðvaðist stór hluti af alþjóðaflugi til og frá Kína. Í mars var ástandið orðið þannig út um allan heim og nú sýna nýjar tölur frá ferðamálaráði Sameinuðu þjóðanna (UNWTO) að þessa þrjá fyrstu mánuði ársins fækkaði ferðafólki á heimsvísu um 22 prósent. Mest í mars eða um 57 prósent.

Heimsfaraldurinn og þær ferðatakmarkanir sem ennþá gilda gætu aftur á móti orðið til þess að erlendum ferðamönnum fækki um 60 til 80 prósent í ár í samanburði við 2019 að mati sérfræðinga UNWTO. Þessi mikla niðursveifla teflir í tvísýnu lífsviðurværi milljónum manna og vísar aðalritari ferðamálaráðsins til þess að ferðaþjónusta er mannaflsfrek atvinnugrein.

UNWTO hefur stillt upp þremur ólíkum sviðsmyndum um hvernig árið gæti þróast. Sú fyrsta gerir ráð fyrir að landamæri opnist að mestu í byrjun júlí og þá nemur samdrátturinn í ár 58 prósentum. Ef við þurfum aftur á  móti að bíða fram í september eftir því að ferðatakmörkunum verði aflétt þá gæti orðið 70 prósent fækkun í utanlandsferðum í ár. Niðursveiflan mun aftur á móti nema 78 prósentum ef það verður fyrst í kringum aðventu sem fólk getur á ný ferðast yfir landamæri með góðu móti.

Ef þessar spár ganga eftir þá þýðir það að erlendum ferðamönnum fækki um allt að 1,1 milljarð í ár og 100 til 120 milljónir starfa í ferðaþjónustu verði í hættu. Heimurinn fer svo á mis við útflutningsverðmæti upp á allt að 1,2 trilljónir bandaríkjadollara.

Þess er getið í samantekt ferðamálaráðs SÞ að meirihluti sérfræðinga sé sammála um að það verði fyrst í lok þessa árs eða 2021 sem einhver batamerki sjáist. Og til að byrja með verði það ferðalög almennings sem taki við sér og í því samhengi má benda á að hlutfall viðskiptaferðalanga á Íslandi hefur verið mjög lágt. Íslenski markaðurinn byggir því fyrst og fremst á fólki á leið í frí eins og Túrist hefur áður fjallað um. Það gæti flýtt fyrir viðspyrnunni fyrir íslenska ferðaþjónustu þegar þar að kemur.