Flugstjórar British Airways með fimmtungi hærri laun

Flugstjórar Icelandair eru með hærri laun en kollegar þeirra hjá easyJet eru töluvert undir þeim sem fljúga þotum British Airways og Air France.

MYND: AMAN BHARGAVA / UNSPLASH

Í kjaradeilum þá kemur vinnuveitendum og stéttarfélögum ekki alltaf saman um hver meðallaun þeirrar stéttar eru sem situr við samningaborðið. Á meðan á verkfalli flugstjóra British Airways stóð síðastliðið haust þá upplýsti félagið að meðallaun flugstjóra hjá flugfélaginu væru 2,5 milljónir króna á mánuði eða 167 þúsund pund á ári. Til viðbótar kæmu svo 2,9 milljónir í aukagreiðslur eða um 242 þúsund á mánuði samkvæmt frétt Financial Times.

Meðallaun flug­stjóra hjá Icelandair eru aftur á móti um fimmtungi lægri eða um 2,1 milljón króna á mánuði samkvæmt svari Icelandair við fyrirspurn Mbl.is í dag. Við þá upphæð bætast 140 þúsund krónur að jafnaði í dagpeninga.

Það er ekki einfalt að bera saman kjör starfsstétta milli landa og kannski sérstaklega þegar kemur að flugmönnum og flugfreyjum þar sem dagpeningar vega oft þungt og eins fá áhafnir oft hlutdeild í hagnaði. Þessa fyrirvara gerir Financial Times í samanburði sínum á milli launakjara flugmanna og flugstjóra hjá nokkrum flugfélögum í fyrra.

Þar kemur fram að meðallaun hjá easyJet eru um 1,8 milljón á mánuði á meðan flugstjórar Air France, á lengri flugleiðum, mega búast við að þéna um þrjár milljónir á mánuði.

Í því samhengi má benda á að meðalflugleiðin hjá Icelandair er um 2500 kílómetrar á meðan hver ferð hjá easyJet er að jafnaði um þúsund kílómetrar líkt og fram kom í greiningu Túrista í gær. Þar sást líka hversu miklu meiri árstíðasveifla er í framboði Icelandair en sambærilegra evrópskra flugfélaga.